Fyrr á árinu lagði fjármálaráðherra fram frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með það að meginmarkmiði að efla erlenda fjárfestingu hér á landi, einkum í nýsköpun. Því er ætlað að einfalda regluverk þegar kemur að erlendri fjárfestingu með það fyrir augum að gera íslenskum fyrirtækjum auðveldara um vik að sækja fjármagn erlendis frá.

Í frumvarpinu segir að íslensk stjórnvöld séu meðvituð um mikilvægi þess að gera Ísland samkeppnishæft við önnur lönd um erlent fjármagn til þess að styðja við íslenskt atvinnulíf og þá einkum nýsköpunarfyrirtækin sem treysti á aðgang að lánsfé. Frumvarpið var að lokinni fyrstu umræðu á þingi sent til efnahags- og viðskiptanefndar.

Bent er á að erlendir aðilar beri takmarkaða skattskyldu á Íslandi af þeim tekjum frá Íslandi sem taldar eru upp í þriðju grein tekjuskattslaga. Meðal þeirra tekna sem erlendir aðilar sæti skattskyldu af sé hagnaður af sölu hlutabréfa í íslenskum fyrirtækjum. Skattprósentan sé ýmist 22% eða 20% eftir því hvort eigandinn sé maður eða lögaðili. Í framkvæmd sé hins vegar algengt að fallið sé frá skattlagningu í þessum tilvikum vegna tvísköttunarsamninga annars vegar og ákvæðis í tekjuskattslögum hins vegar.

Eins og rakið var í frétt Viðskiptablaðsins fyrr á árinu er frumvarpið var enn í smíðum standa erlendir fjárfestar sem fjárfesta hér á landi og hafa skattalega heimilisfesti í ríkjum sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við frammi fyrir því að þurfa engu að síður að leggja út fyrir fullum skattgreiðslum og sækja svo um endurgreiðslu á því sem nemur lækkuðu skatthlutfalli í samræmi við viðkomandi tvísköttunarsamning. Í frumvarpinu er bent á að hafi staðgreiðsla hagnaðar af sölu félags farið fram við greiðslu í janúar þá gætu liðið allt að 22 mánuðir þar til skatturinn af hagnaðinum, sem haldið var eftir í staðgreiðslu, kemur til endurgreiðslu.

Töluvert umstang geti fylgt undanþágu frá staðgreiðsluskyldu, eða endurgreiðslu, á grundvelli tvísköttunarsamnings eða endurgreiðslu á grundvelli laganna. Þegar um sé að ræða erlend félög með dreift eignarhald geti enn fremur reynst erfitt að finna út hverjir eigendurnir séu á tilteknum tímapunkti, hvar þeir séu heimilisfastir, miðla upplýsingum til þeirra og óska eftir gögnum þannig hægt sé að beita tvísköttunarsamningi. Þetta eigi sérstaklega við þegar eignarhald á bréfum fari í gegnum milliliði, svo sem vörslureikninga, eða þegar bréf séu í eigu sjóða eða ósjálfstæðra skattaðila. Þá sé oft erfitt eða ómögulegt fyrir hinn staðgreiðsluskylda aðila að átta sig á hvaða skatti honum ber að halda eftir í staðgreiðslu og hvort hann geti beitt tvísköttunarsamningi.

„Enn fremur hefur verið bent á að óvissa ríkir um hvort tilteknir erlendir aðilar geti beitt tvísköttunarsamningi Íslands og Bandaríkjanna sem talið er að geti skýrt fremur litla fjárfestingu bandarískra aðila hér á landi í samanburði við nágrannalönd okkar. Framangreint má telja að hafi fráhrindandi áhrif á fjárfestingu á Íslandi, sérstaklega þegar litið er til sambærilegra reglna í nágrannalöndum okkar en ekkert annað ríki Norðurlandanna leggur skatt á hagnað erlendra aðila af sölu hlutabréfa, hvort sem um ræðir menn eða lögaðila. Sé horft til Þýskalands, Frakklands, Spánar, Bretlands, Belgíu eða Hollands þá er sama niðurstaða þegar kemur að lögaðilum en undantekningar eru frá því þegar kemur að skattskyldu erlendra manna,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.