Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn hagnaðist um 2,1 milljarð króna á síðasta ári samanborið við 888 milljóna hagnað árið 2022. Bætt afkoma skýrist einkum af 2,4 milljarða króna söluhagnaði af sölu á stofnneti til Ljósleiðarans. Sýn birti ársuppgjör eftir lokun markaða í dag.
Stjórn Sýnar leggur til að ekki verði greiddur arður vegna rekstrarársins 2023. Sú ákvörðun byggir á að félagið réðst í endurkaup upp á einn milljarð króna í fyrra.
Sýn mun ekki gefa út horfur fyrir árið 2024 í ljósi þess að félagið er í „stefnumótun með Stöð 2 og framtíðareignarhald á Vefmiðlum og útvarpi er til skoðunar sem og að áhersla verður á kostnaðaraðhald og hagræðingu til skamms tíma“.
Framlegð á fjórða ársfjórðungi lækkaði um 28%
Velta félagsins jókst um 2,1% milli ára og nam 23,5 milljörðum króna í fyrra. Framlegð Sýnar dróst saman um 2,5% frá fyrra ári og nam 7,8 milljörðum.
Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði var um 3,5 milljarðar króna, samanborið við 1,6 milljarða árið 2022. Sé hins vegar leiðrétt fyrir framangreindum söluhagnaði lækkar rekstrarhagnaður um 484 milljónir króna á milli ára.
Tekjur Sýnar á fjórða ársfjórðungi námu 6.253 milljónum króna og jukust um 8% frá sama tímabili ári áður. Framlegð á fjórðungnum dróst saman um 27,6% milli ára, úr 2.095 milljónum í 1.517 milljónum.
„Rekstrarumhverfið er krefjandi og má hér nefna m.a. baráttuna við háa verðbólgu sem hefur óneitanlega áhrif á rekstur Sýnar. Við munum á rekstrarárinu 2024 leggja ríka áherslu á að létta á skuldum, aðhald í kostnaði ásamt því að viðhalda kjarnatekjum félagsins,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.
Eignir Sýnar voru bókfærðar á 34,9 milljarða króna í árslok 2023 og eigið fé í lok var um 10,3 milljarðar. Eiginfjárhlutfall félagsins var 29,4%.