Helstu vonbrigði í rekstri Arion banka í fyrra voru að sögn Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða, ótengd rekstrinum sem slíkum en S&P hafi ekki endurskoðað afstöðu sína til sérstaks álags í mati sínu á bankanum, sökum neikvæðrar skoðunar S&P á íslensku efnahagsumhverfi. Það leiði til þess að bankanum sé þröngar stakkur sniðinn í því að koma umfram eigin fé til hluthafa í gegnum endurkaup.

Jón vekur athygli á þessu í bréfi til hluthafa Stoða. Þessi afstaða S&P veki furðu enda íslenskir bankar með hvað mesta eigið fé sem um getur í rekstri banka í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Hann vísar svo til þess að nýverið hafi verið tilkynnt að Arion banki hefði boðað til fundar meðal skuldabréfaeigenda þar sem tillaga sé um að fella niður mat S&P á skuldabréfunum.

„Gera má ráð fyrir að hér sé um að ræða fyrsta skrefið í að gera bankann óháðan S&P þegar kemur að ákvörðun um stýringu á fjárhagsskipan bankans. Vonandi komast þessi mál því í eðlilegan farveg í mjög svo náinni framtíð svo bankinn geti rekið sig með eðlilegum hætti líkt og aðrir evrópskir bankar,“ skrifar Jón.

Stoðir er sá einkafjárfestir sem á stærstan hluta í Arion banka og er 5,48% hlutur félagsins í bankanum verðmætasta eign fjárfestingafélagsins. Verðmæti eignarhlutar Stoða í bankanum nam 11,9 milljörðum króna í lok síðasta árs og er á svipuðu slóðum í dag.

Stoðir hafa góðar væntingar til rekstur bankans á þessu ári og benda á að markaðsaðilar geri ráð fyrir um 26,6 milljarða króna hagnaði á árinu 2024. Að teknu tilliti til órekstrartengdra eigna og umfram eiginfjár sé ljóst að bankinn sé einstaklega hóflega verðlagður miðað við önnur fyrirtæki í íslensku kauphöllinni.