„Viðtökurnar hafa verið frábærar og Íslendingar eru greinilega forvitnir að smakka nýjar íslenskar vörur,“ segir Róbert Freyr Samaniego stofnandi próteindrykksins Done.

Um er að ræða nýjan mysupróteindrykk sem fór í verslanir í lok október og hefur vakið talsverða athygli. Róbert vann drykkinn í samstarfi við stóran matvælaframleiðanda í Finnlandi. Þrjár bragðtegundir af drykknum fæst í öllum helstu matvöruverslunum landsins, súkkulaði, jarðaberja og cappuccino.

Tugþúsundir áhorfa á TikTok

Done hefur staðið að umfangsmikilli og fjölbreyttri markaðssetningu. Þar má nefna viðtal hjá Ísland í dag, kynningar í verslunum og þá hefur fyrirtækið einnig náð miklu flugi á samfélagsmiðlum, sérstaklega á TikTok.

„Það var ekki úthugsað og gerðist eiginlega óvart að við fengum mikið áhorfi á TikTok. Mörg myndbandanna eru nú þegar komin með tugþúsunda áhorfa, sem er auðvitað frábært. Nú stefnum við á að ná til enn breiðari markhóps,“ segir Róbert.

Fyllir í gat á markaðnum

Á próteindrykkjamarkaðnum á Íslandi hefur Hleðsla frá MS verið afar umfangsmikil á síðustu árum og fáir drykkir hreinlega komist að á markaðnum. Róbert telur Done verðugan samkeppnisaðila og segir hann viðtökur drykkjarins vísbending um það.

„Þarna ertu kominn með vöru sem er með þá sérstöðu að innihalda mikið magn mysupróteina sem leysast mun hraðar í líkamanum en mjólkurprótein og hentar því vel eftir hreyfingu. Þar að auki inniheldur drykkurinn trefjar sem eru góðar fyrir þarmaflóruna og stuðla að góðri meltingu og jafnari blóðsykri,“ bætir Róbert við.