Hugsmiðjan – ein elsta hönnunar- & hugbúnaðarstofa landsins – hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun um aldamótin og þróast með markaðnum. Ragnheiður Þorleifsdóttir framkvæmdastjóri segir reksturinn hafa stigbatnað ár frá ári síðan stjórnendur fóru að leggja meiri áherslu á „mjúku málin“, en fyrirtækið er meðal annars brautryðjandi í styttingu vinnuvikunnar.

Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu árin, en árið 2022 var afburðagott að sögn Ragnheiðar, sem þakkar það ekki síst breiðum og öflugum hóp starfsfólks. „Maður náttúrulega gerir ekkert án þess að vera með góðan hóp og við leggjum rosalega mikið upp úr vinnumenningunni.“

Stjórnendur leggja mikið upp úr því að halda starfsandanum og starfsaðstæðum sem bestum, enda mannauður lykilframleiðsluþáttur í skapandi vinnu á borð við þá sem Hugsmiðjan fæst við.

„Við höfum verið að taka markviss skref í styttingu vinnuvikunnar og höfum til dæmis verið með sex tíma vinnudag síðan 2016. Með því höfum við viljað leggja áherslu á vinnuframlag og afköst frekar en viðveru á vinnustaðnum. Við erum auðvitað að vinna í útseldum tímum fyrir okkar viðskiptavini þannig að það er mjög auðvelt fyrir okkur að mæla árangur.“

Eftir að sex tíma kerfið var tekið upp hafi framleiðni aukist áþreifanlega og þar með bæði tekjur og hagnaður, sem sé til marks um að uppbyggileg og heilbrigð vinnumenning stuðli að bættri afkomu rekstrarins.

„Þetta hefur skilað okkur gríðarlegum árangri. Okkur hefur fundist þetta gera kraftaverk í að efla starfsmannahópinn og stemninguna og auka traust í sambandi fólks við vinnustaðinn sinn, enda erum við í rauninni að setja meira traust á starfsfólk, að það bara vinni sína vinnu hvort sem það vill gera það á skrifstofunni eða jafnvel heima hjá sér.“

Ragnheiður segir hin svokölluðu „hörðu mál“ lengi hafa fengið alla athyglina þegar fyrirkomulag og afkoma rekstrarins er annars vegar, en í dag sé að verða ákveðin vitundarvakning sem felist í aukinni áherslu á „mýkri málin“ hvað það varðar.

Vöxtur greinarinnar skipt sköpum fyrir rekstrarlíkanið

Eðli máls samkvæmt hefur ýmislegt breyst í vefhönnun og hugbúnaðargerð á þeim ríflega tveimur áratugum sem Hugsmiðjan hefur verið starfandi enda internetið enn á margan hátt að slíta barnsskónum um aldamótin.

Í árdaga fyrirtækisins og greinarinnar hafi því ekki verið um annað að ræða fyrir stofur eins og Hugsmiðjuna en að taka því sem bauðst og reyna að gera allt fyrir alla, en í dag sé öldin önnur. Eftirspurnin eftir hönnun á viðmóti og þjónustumiðstöð á vefnum hefur aukist gríðarlega með árunum að sögn Ragnheiðar.

„Fyrirtæki og stofnanir eru einfaldlega ekki til ef þau eru ekki með góðan vettvang á netinu þar sem fólk getur leitað sér upplýsinga, átt við þau viðskipti eða hvaðeina,“ segir hún. Það eigi við um flugfélög, sýslumenn og allt þar á milli.

„Í dag er markaðurinn orðinn allt annar, verkefnin eru mun fjölbreyttari og við erum farin að geta valið hvað við tökum að okkur eftir okkar sérhæfingu og hvað hentar okkur best.“

Í krafti þessa aukna svigrúms segir hún Hugsmiðjuna hafa náð að þróa með sér sterka sérhæfingu sem felist fyrst og fremst í notendavænum, sérhönnuðum tæknilausnum.

„Það getur nánast hver sem er sett saman lítinn, einfaldan vef í dag, sem dæmi. Það sem við erum að gera er að fara inn í þung og umfangsmikil hugbúnaðarverkefni sem krefjast mikillar sérþekkingar – Þessi sem gjarnan eru kölluð stafræn umbreyting. Það er okkar sérstaða.“

Þeir viðskiptavinir sem kaupi slíka þjónustu geti svo verið æði misjafnir, en grunnurinn í aðferðafræði og áherslum Hugsmiðjunnar sé alltaf sá sami. „Fjölbreytnin meðal okkar viðskiptavina er mikil, en það er alltaf notendaupplifunin sem er okkar hjartans mál.“

Rætt er við Ragnheiði í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.