Lukasz Krupski, fyrrum starfsmaður Tesla, segir í samtali við fréttamiðilinn BBC að tæknin sem sjálfkeyrandi bílar fyrirtækisins notast við sé ekki nógu örugg til notkunar á almennum vegum. Hann segir að Tesla hafi ekki tekið mark á þessum áhyggjum þegar þær voru lagðar fyrir fyrirtækið.

Tesla hefur enn ekki svarað fyrirspurnum BBC en Elon Musk, framkvæmdastjóri Tesla, hefur lengi talað fyrir þessari tækni.

Í viðtali segir Lukasz að áhyggjur hans snúi fyrst og fremst að því hvernig gervigreind væri notuð til að knýja sjálfstýringarbúnað Tesla. Sjálfstýringin felur til dæmis í sér aðstoðarstýringu við að keyra og leggja í stæði.

„Að mínu mati er hvorki vélbúnaðurinn né hugbúnaðurinn tilbúinn. Þetta hefur í raun áhrif á okkur öll vegna þess að við erum í rauninni öll tilraunadýr á veginum. Jafnvel þó að þú eigir ekki Tesla sjálfur, þá ganga börnin þín meðfram gangstéttinni,“ segir Lukasz.

Hann bætir við að aðrir starfsmenn Tesla hefðu bent honum á að ökutækin ættu það til að bremsa af handahófi til að bregðast við hindrunum sem voru ekki til staðar. Þetta kemur einnig fram í gögnum og kvörtunum viðskiptavina sem Lukasz lak til þýska dagblaðsins Handelsblatt í maí.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur rannsakað fullyrðingar Tesla um getu og öryggi aksturseiginleika hjá bílum fyrirtækisins síðan í janúar. Umferðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NHTSA) hefur einnig dregið öryggi sjálfstýrikerfisins í efa.