Tvö flutningaskip hafa komist sinna leiða til hafnar í Úkraínu eftir að hafa siglt nýja leið um Svartahafið. Að sögn úkraínskra yfirvalda komu skipin til Chornomorsk á laugardaginn til að geta komið um 20.000 tonnum af korni á heimsmarkað.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem flutningsskip nær til úkraínskar hafnar frá því að samningurinn við Rússa um kornflutning féll úr gildi.

Oleksandr Kubrakov, aðstoðarforsætisráðherra, sagði að skipin tvö, Resilient Africa og Aroyat, hafi siglt undir fána eyríkisins Palau í Eyjaálfu og að áhöfnin hafi samanstaðið af fólki frá Úkraínu, Tyrklandi, Aserbaídjan og Egyptalandi.

Að sögn úkraínska utanríkisráðuneytisins munu skipin tvö koma til með að afhenda kornið til Egyptalands og Ísraels.

Úkraína er einn stærsti framleiðandi í heimi af sólarblómaolíu, byggi, maís og korni. Þegar Rússar réðust inn í landið í febrúar 2022 lokaði rússneski sjóherinn fyrir hafnir landsins við Svartahaf og lokaði þar með 20 milljónir tonna af korni sem ætlað var til útflutnings.

Þetta varð til þess að heimsmarkaðsverð matvæla hækkaði og myndaðist skortur í mörgum ríkjum í Afríku og Miðausturlöndum. Sum þessara ríkja, þar á meðal Afganistan, Jemen, Súdan og Eþíópía eru enn í sárri þörf fyrir mannúðaraðstoð.