Allir fyrirvarar í kaupsamningi um kaup Hampiðjunnar á norska félaginu Mørenot eru nú uppfylltir eftir að samþykki barst í dag frá samkeppniseftirliti Færeyja en samkeppnisyfirvöld Íslands og Grænlands höfðu þegar samþykkt viðskiptin. Gengið verði frá viðskiptunum á næstu dögum, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hampiðjan skrifaði í nóvember undir kaupsamning við norska fjárfestingasjóðinn FSN Capital um kaup á öllu hlutafé í Mørenot en sjóðurinn á 82% hlut í Mørenot. Stór hluti kaupverðsins verður greiddur með hlutum í Hampiðjunni en seljendurnir munu fara með 9,4% hlut í sameinuðu félagi.

„Þetta verða okkar stærstu viðskipti ef allt gengur eftir,“ sagði Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar í Áramótum, tímariti Frjálsrar verslunar og Viðskiptablaðsins. „Hjá Mørenot starfa 750 manns og velta fyrirtækisins er um 130 milljónir evra á ári."

Norska félagið, sem veitir þjónustu og selur vörur til fyrirtækja í sjávarútvegi, fiskeldi og olíuiðnaði, er með starfstöðvar á þrjátíu stöðum víða um heim. Stærsti hlutinn af starfsstöðvunum sérhæfir sig í þjónustu við fiskeldi.

„Þessi rekstur passar afskaplega vel við rekstur Hampiðjunnar og við væntum þess að samlegðaráhrifin verði mikil. Það hentar sem dæmi mjög vel að í Noregi er tiltölulega langt á milli starfsstöðva Mørenot og Hampiðjunnar. Það er einungis í Tromsö, sem starfsstöðvarnar eru nálægt hvor annarri. Landfræðilega passar þetta því afskaplega vel við Hampiðjuna, sem og framleiðslulega séð,“ sagði Hjörtur í sama viðtali.

Samhliða tilkynnti Hampiðjan, sem er skráð á íslenska First North-markaðinn, um að félagið stefni að því að færa sig yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar í ár.