Hlutabréfaverð Alvotech hefur hækkað um tæplega 6% það sem af er degi og stendur í 1.915 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð.

Lyfjalíftæknifyrirtækið tilkynnti rétt eftir tíuleytið í dag að það hefði gert sölusamning við „leiðandi innkaupaaðila lyfja í Bandaríkjunum“ um sölu og markaðssetningu á líftæknilyfjahliðstæðu félagsins við gigtarlyfið Humira.

Gengi hlutabréfa Alvotech hækkuðu umtalsvert í byrjun árs eftir að tilkynnt var um að eftirlitsaðilar Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) hefðu aðeins gert eina athugasemd í lok úttektar á framleiðsluaðstöðu Alvotech í Reykjavík sem Alvotech sagðist telja einfalt að bregðast við.

Alvotech tilkynnti 24. febrúar um að FDA hefði veitt félaginu markaðsleyfi r í Banda­ríkjunum á Simlandi (adali­mu­mab-ryvk), sem líf­tækni­lyfja­hlið­stæðu við Humira.

Fyrir opnun markaða 26. febrúar var tilkynnt um að Alvotech hefði selt almenn hlutabréf í félaginu til hóps fyrir 22,8 milljarða króna á genginu 2.250 krónur á hlut.

Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði töluvert í kjölfarið og náði dagslokagengi félagsins sínu hæsta stigi í 2.450 krónum sama dag. Næstu vikur lækkaði gengi hlutabréfanna um þriðjung og fór dagslokagengið lægst í 1.620 krónur á hlut í byrjun þessa mánaðar. Lækkunin hefur m.a. verið rakin til þess að fjárfestar urðu fyrir vonbrigðum með að ekki var búið að ganga frá sölusamningi í Bandaríkjunum.

Hlutabréfaverðið hefur þokast aðeins upp síðustu tvær vikur og stóð það í 1.810 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar í gær.

Eftir lokun markaða á þriðjudaginn tilkynnti Alvotech um að FDA hefði veitt félaginu leyfi til sölu og markaðssetningar í Bandaríkjunum á Selarsdi (ustekinumab-aekn), sem líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara.