Hluta­bréfa­verð Iceland Sea­food International, sem hefur verið á nær stöðugri niður­leið frá þriðja árs­fjórðungi, hækkaði um tæp 9% í Kaup­höllinni í dag eftir árs­upp­gjör í gær­kvöldi.

Veru­legur við­snúningur hefur verið á rekstri fé­lagsins sem tapaði 3 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins en í lok septem­ber lét Bjarni Ár­manns­son af störfum sem for­stjóri ISI og seldi jafn­framt 10,8% hlut sinn í fé­laginu til Brims á genginu 5,3 krónur.

Ægir Páll Frið­berts­son, sem tók við for­stjóra­stöðunni af Bjarna, keypti jafn­framt hluti í fé­laginu fyrir 5 milljónir króna í morgun.

Dagsloka­gengi ISI var 5,75 krónur en hluta­bréf fé­lagsins eiga langt í land með að ná vopnum sínum en þau stóðu hæst í kringum 18 krónurnar sumarið 2021.

Hluta­bréfa­verð Skaga hækkaði einnig í við­skiptum dagsins en gengi fé­lagsins fór upp um rúm 5% í 136 milljón króna veltu.

Skagi birti árs­upp­gjör eftir lokun markaða í gær en fé­lagið hagnaðist um 1,8 milljarða króna þrátt fyrir veru­legar á­skoranir í trygginga­rekstri sam­stæðunnar.

Gengi málm­leitar­fé­lagsins Amaroq hækkaði um tæp 4% í 330 milljón króna veltu en fé­lagið greindi frá kopar og nikkelfundi við námu­gröft í Suður-Græn­landi fyrir opnun markaða.

Dagsloka­gengi Amaro var 139 krónur og hefur gengið aldrei verið hærra.

Loðnuleit hefur áhrif á útgerðarfélög

Út­gerðar­fé­lögin þrjú Ís­fé­lagið, Síldar­vinnslan og Brim leiddu lækkanir í Kaup­höllinni í dag en loðnu­leit virðist lítinn árangur bera og ekki von á miklum loðnu­veiðum í vor. Gengi fé­laganna þriggja fór niður um rúmt 1% í við­skiptum dagsins.

Gengi Al­votexch lækkaði einnig þriðja daginn í röð. Gengið hefur nú lækkað um 12% síðustu þrjá við­skipta­daga eftir tölu­verðar hækkanir síðast­liðna mánuði.

Úr­vals­vísi­talan hækkaði um 0,4% en afar lítil velta var á markaði sem nam 2,7%.