Hluta­bréf í Marel féllu um tæp 2% við opnun markaða í morgun og fór gengið undir 400 krónurnar í fyrsta sinn síðan í janúar 2019.

Gengið hefur nú lækkað um tæp 17% síðast­liðinn mánuð og um rúm 18% á árinu.

Markaðs­virði Marel tók högg í byrjun maí þegar fé­lagið birti ársfjórðungsuppgjör fyrsta ársfjórðungs.

Gengið fór undir 500 krónur og féll um 17,6% á einum degi. Markaðsvirði Marel féll um 80 milljarða króna sama dag.

Tugmilljarða lækkun á nokkrum dögum

Markaðs­virði Marel hefur lækkað um rúma 23 milljarða miðað við dagslokagengi mánudags og miðvikudags.

Í upp­gjörinu í maí kom fram að Marel hagnaðist um 9,1 milljónir evra á fyrsta árs­fjórðungi, eða sem nemur 1,35 milljörðum króna miðað við gengið í lok mars.

Til saman­burðar hagnaðist fé­lagið um 21,7 milljónir evra á sama fjórðungi í fyrra.

Mót­teknar pantanir námu 362,6 milljónum evra saman­borið við 421,7 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Stóð pantana­bókin í 590,4 milljónum evra í lok fyrsta árs­fjórðungs og dróst saman um 6% milli ára.