Erfiðlega gengur að selja tvö af tvö af dýrustu stórhýsum London, sem eru samanlagt föl fyrir 475 milljónir punda eða um 83 milljarða króna. Háir vextir og krefjandi skattaumhverfi eru sögð draga úr áhuga fjárfesta. Bloomberg greinir frá.

Hui Ka Yan, stofnandi kínverska fasteignafélagsins Evergrande, hefur verið að selja margar eignir sínar á síðustu misserum, þar á meðal 45 herbergja stórhýsið að 2-8a Rutland Gate við Hyde Park. Hui keypti slotið á 210 milljónir punda í ársbyrjun 2020.

Í umfjöllun Bloomberg kemur fram að hann hafi verið nálægt því að selja Rutland Gate stórhýsið í ár fyrir tæplega 200 milljónir punda, eða um 35 milljaðra króna, sem var þó 25 milljónum punda undir ásettu verði. Kauptilboð barst frá aðila frá Miðausturlöndum en ekki náðist endanlegt samkomulag að lokum.

Annað kauptilboð er á borðinu frá öðrum fjárfesti frá Miðausturlöndum, að sögn heimildarmanns. Hui er þó sagður telja tilboðið vera of lágt.

Kröfuhafar á hendur Hui tóku yfir tvö lúxushýsi hans í Hong Kong í síðasta mánuði en skuldavandræði Evergrande hafa dregið verulega úr auðæfum hans.

Í febrúar síðastliðnum var greint frá því að 40 herbergja stórhýsið The Holme í Regent's Park í London hafi verið sett á sölu eftir að tæplega 26 milljarða króna lán sádi-arabísks eiganda hennar fór í vanskil.

Þrátt fyrir að fjöldi áhugasamra aðila hafi skoðað eignina í ár hefur ekki enn borist tilboð í námunda við 250 milljóna punda ásett verð hennar, sem nemur um 44 milljörðum króna á gengi dagsins.

„Kaupendur á markaðnum vilja núna upplifa að þeir séu að fá afslátt. Seljendur dýrustu lúxuseigna taka þó ekki hvaða tilboðum sem er,“ er haft eftir framkvæmdastjóra fasteignasölunnar Eccord.

Hækkandi fjármagnskostnaður, óvissa í efnahagsmálum og almenn kaupmáttarrýrnun hafa haft töluverð neikvæð áhrif á breska fasteignamarkaðinn. Lúxusfasteignamarkaðurinn í London er minna viðkvæmur fyrir slíkri þróun þar sem kaupendur á því sviði reiða sig heilt yfir hlutfallslega minna á skuldsetningu. Neikvæðni í kringum fasteignamarkaðinn og pólitísk áhætta í kringum komandi þingkosningar í Bretlandi hafa hins vegar dregið úr eftirspurn.