Norski fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs gerir ársuppgjör Play að umtalsefni í færslu á Linkedin síðu sinni. Hann bendir á að kostnaður á sætiskílómetra (CASK) án eldsneytiskostnaðar hafi lækkað um 6% frá fyrra ári og kostnaður á sætiskílómetra með eldsneyti hafi lækkað um 13%, sem sé vel að verki staðið.

Þrátt fyrir að kostnaður á sætiskílómetra hafi dregist saman og tekjur á sætiskílómetra aukist um 7%, hafi félagið tapað 0,4 sentum af hverjum flognum sætiskílómetra. Hækkandi eldsneytisverð, aukin kostnaður við kaup á losunarheimildum, hækkandi launakostnaður og aukinn kostnaður við viðhald flugvéla, fermingu og affermingu þeirra og hærri flugvallagjöld hafi orðið til þess að stórauknar tekjur skiluðu ekki meiri afkomubata en raun bar vitni. Í því samhengi verði einnig að hafa í huga að Play stækkaði flugvélaflotann og fjölgaði áfangastöðum í fyrra.

Play glími við sömu áskoranir og norska flugfélagið Norse sem felist í krefjandi fyrstu og fjórðu ársfjórðungum sem verði til þess að félögin þurfa að reiða sig á að annar og þriðji ársfjórðungarnir beri uppi afkomuna.

Hann bendir á að lággjaldaflugfélög með svipað leiðarkerfi og Play, sem samanstendur aðallega af meðallöngum og löngum flugleggjum, þurfi lengri tíma, minnst 2 til 3 ár, til að byrja að skila hagnaði – gangi allt upp.

Loks bendir Hans Jørgen á að skilmálar kreditkortafyrirtækjanna um að skila ekki greiðslu til flugfélaga fyrr en 7 til 10 dögum eftir ferðalag flugfarþega geti leitt til þess að flugfélög lendi í lausafjárvanda utan háannatíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.