Íslenska tæknifyrirtækið RetinaRisk tilkynnti í dag samstarf við indverska tæknifyrirtækið Remido en samningurinn felur í sér dreifingu á háþróuðum gervigreindarlausnum og augnbotnamyndavélum á Norðurlöndunum og í Kanada.

Samningurinn markar tímamót í framboði á tækninýjungum í augnlækningum og mun auðvelda snemmgreiningu og meðhöndlun á ýmsum augnsjúkdómum, þar með talið gláku og sykursýkisaugnsjúkdómum.

„Við erum spennt fyrir samstarfinu við Remidio og þeim möguleikum sem það opnar fyrir okkur, ekki aðeins á Norðurlöndunum og í Kanada heldur einnig í að styrkja stöðu okkar sem leiðandi aðila í gervigreindargreiningu í augnlækningum,“ sagði Ægir Þór Steinarsson framkvæmdastjóri RetinaRisk.

Með því að nýta sér gervigreind í augnskimunum mun RetinaRisk geta boðið upp á enn nákvæmari og skilvirkari greiningar, sem munu gagnast bæði sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki.

Fyrsta augnskimunin með gervigreind á Íslandi, sem nýtir tæknina frá RetinaRisk og Remidio, mun hefjast í næsta mánuði. „Með þessum framförum stefnum við að auka dreifingu lausnarinnar á Íslandi, sem er mikilvægt skref í átt að bættri tækninýtingu í heilbrigðisþjónustunni,“ segir jafnframt í tilkynningu.