OA eignarhaldsfélag ehf., sem er í jafnri eigu Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, og Októs Einarssonar stjórnarformanns drykkjavöruframleiðandans, hagnaðist um 1.375 milljónir króna árið 2022 samanborið við 1.762 milljóna hagnað árið áður. Rekja má hagnaðinn til hækkunar á virði eignarhlutar félagsins í Ölgerðinni.

OA eignarhaldsfélag ehf., sem er í jafnri eigu Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, og Októs Einarssonar stjórnarformanns drykkjavöruframleiðandans, hagnaðist um 1.375 milljónir króna árið 2022 samanborið við 1.762 milljóna hagnað árið áður. Rekja má hagnaðinn til hækkunar á virði eignarhlutar félagsins í Ölgerðinni.

OA eignarhaldsfélag er næst stærsti hluthafi Ölgerðarinnar með 11,3% hlut. Eignarhluturinn var bókfærður á 3.306 milljónir króna í ársreikningnum í samræmi við 10,45 krónur gengi hlutabréfa Ölgerðarinnar í lok síðasta árs.

Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar hefur hækkað um 23% það sem af er ári og stendur nú í 12,85 krónum á hlut. Markaðsvirði eignarhlutar OA í Ölgerðinni er nú yfir 4 milljarðar króna.

Á hluthafafundi OA eignarhaldsfélags í september síðastliðnum var staðfest fyrri ákvörðun félagsins frá júní 2022 um að greiða út 820 milljónir króna með lækkun hlutafjár.

Ölgerðin var skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar í júní 2022 að loknu nærri 8 milljarða króna almennu hlutafjárútboði þar sem seldur var tæplega 30% hlutur í fyrirtækinu.

OA eignarhaldsfélag seldi um 4,8% hlut í Ölgerðinni í umræddu útboði fyrir 1,3 milljarða króna og átti í kjölfarið 11,3% hlut.