Gríska ríkið seldi 30% eignarhlut sinn í alþjóðaflugvellinum í Aþenu í frumútboði fyrir helgi. Samhliða var flugvöllurinn skráður í kauphöllina í Aþenu og fara fyrstu viðskipti með bréfin fram á morgun.
Umframeftirspurn var í útboðinu en hlutabréf seldust fyrir 785 milljónir evra, þar sem gengið var 8,2 evrur á hlut. Miðað við það er markaðsvirði flugvallarins um 2,46 milljarðar evra.
Yfirvöld í Grikklandi tilkynntu fyrst um fyrirhugað útboð um miðjan janúar. Mikil einkavæðing átti sér stað í Grikklandi á síðasta áratug en nýlega hafa yfirvöld selt eignarhluti sína í helstu viðskiptabönkum landsins.