Guðmundur Marteinsson verður áfram framkvæmdastjóri Bónus en þetta kemur fram í fréttatilkynningu Haga til Kauphallarinnar.
Þann 30. apríl síðastliðinn var tilkynnt um breytingu á framkvæmdastjórn Haga þar sem fram kom að Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, hefði óskað eftir að láta af störfum hjá fyrirtækinu. Hagar hafa nú náð samkomulagi við Guðmund og mun hann áfram starfa sem framkvæmdastjóri Bónus.
Í ársreikningi félagsins sem birtur var 18. maí síðastliðinn var tilkynnt að fjárhagsleg áhrif starfslokanna kæmu fram á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins 2020/21. Í ljósi fyrrgreinds samkomulags mun ekki koma til gjaldfærslu nú, líkt og áður hafði verið áætlað.
Sjá einnig: Finnur og Guðmundur fá um 350 milljónir
Stjórn Haga gerir nú ráð fyrir því að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir samstæðunnar (EBITDA) á fyrsta ársfjórðungi verði á bilinu 1.100 til 1.250 milljónir króna.