Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um 1,25 prósentur fyrir tveimur vikum, úr 7,5% í 8,75%. Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var fyrir skemmstu, kemur fram að allir nefndarmenn hafi stutt tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um 125 punkta hækkun að Gunnari Jakobssyni undanskildum sem hefði fremur kosið að hækka vexti bankans um 100 punkta.

„Gunnar Jakobsson greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra og vildi hækka vexti um 1 prósentu enda teldi hann að áhrif fyrri vaxtahækkana væru ekki að fullu komin fram og því ekki nauðsynlegt að stíga stærra skref núna.“

Auk þess að hækka stýrivexti ákvað peningastefnunefnd að hækka fasta bindiskyldu innlánsstofnana úr 1% í 2%. Allir nefndarmenn studdu þessa tillögu. Á fundinum kom jafnframt fram að ef þörf væri á gæti nefndin ákveðið síðar að beita bindiskyldu í enn meiri mæli.

„Nefndarmenn töldu að hækkun bindiskyldu myndi leiða til hækkunar á jaðarfjármagnskostnaði innlánsstofnana sem myndi að öðru óbreyttu minnka svigrúm þeirra til útlána. Nefndarmenn voru hins vegar sammála um að hækkun bindiskyldunnar kæmi ekki í staðinn fyrir hækkun vaxta enda væru þeir meginstjórntæki peningastefnunnar,“ segir í fundargerðinni.