Tekjur Microsoft jukust um 2% á síðasta ársfjórðungi ársins 2022, samanborið við sama fjórðung árið á undan, og námu 52,7 milljörðum dala. Er um að ræða hægasta tekjuvöxt félagsins í sex ár, eða frá því á öðrum fjórðungi ársins 2016. WSJgreinir frá.

Hagnaður Microsoft nam 16,4 milljörðum dala á síðasta ársfjórðungi 2022 og dróst saman um 12% samanborið við sama fjórðung árið áður. Félagið segir minnkandi eftirspurn í hugbúnaðar- og skýjaþjónustu sökum ástandsins í heimshagkerfinu helstu ástæðu ofangreinds.

Microsoft er fyrst í röð stórra alþjóðlegra tæknifyrirtækja til að skila uppgjöri fyrir síðasta ársfjórðung. Tæknirisarnir hafa verið með niðurskurðarhnífinn á lofti undanfarið og sagt upp tugum þúsunda starfsmanna til að bregðast við samdrætti í eftirspurn.

Í síðustu viku greindi Microsoft frá því að 10 þúsund starfsmönnum félagsins verði sagt upp til að bregðast við ástandinu í heimshagkerfinu. Um er að ræða stærstu uppsögn Microsoft í rúmlega átta ár.