Hafnarfjarðarbær var rekinn með 808 milljóna króna afgangi árið 2023. A-hluti Hafnarfjarðarbæjar var rekinn með tæplega 250 milljóna króna afgangi á síðasta ári líkt og á árinu 2022.

Rekstrarniðurstaðan var undir áætlun sem skýrist þó nær alfarið af því að fjármagnsgjöld voru meiri en gert var ráð fyrir vegna neikvæðrar verðlags- og vaxtaþróunar miðað við upphaflegar forsendur.

„Ef ekki hefðu komið til ófyrirséðar auknar lífeyrisskuldbindingar á árinu hefði rekstrarniðurstaða verið nokkuð yfir áætlun,“ segir í tilkynningu Hafnarfjarðarbæjar.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 2.635 milljónum króna, sem samsvarar um 5,6% af heildartekjum síðasta árs, og var 904 milljónum yfir áætlun.

Skuldaviðmið samstæðu Hafnarfjarðarbæjar heldur áfram að lækka og nam 82% í árslok 2023. Skuldahlutfall fór úr 135% í upphafi árs niður í 129%.

„Rekstur Hafnarfjarðarbæjar gekk mjög vel á síðasta ári þrátt fyrir krefjandi árferði í rekstri sveitarfélaga. Það er ánægjulegt að sjá að skuldaviðmið bæjarins heldur áfram að lækka og er nú svo komið að fjárhagsstaða bæjarins hefur ekki verið betri í áratugi. Veltufé frá rekstri var verulega yfir áætlunum sem styrkir getu sveitarfélagsins til þess að standa undir framkvæmdum og fjárskuldbindingum,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

Fjárfestu fyrir 7 milljarða

Rekstrartekjur af A og B hluta námu 47,3 milljörðum króna á árinu 2023 og jukust um 5,4 milljarða á milli ára. Rekstrargjöld voru 42,0 milljarðar króna og jukust um 5,4 milljarða. Þar af námu laun og launatengd gjöld 22,2 milljörðum króna.

Í tilkynningu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að fjárfestingar á árinu 2023 hafi numið 7,1 milljarði króna sem er 74% aukning frá fyrra ári. Heildareignir í lok árs voru alls 93,9 milljarðar króna og jukust um 9,3 milljarða á milli ára.

„Samhliða blómlegum rekstri voru innviðafjárfestingar auknar verulega í fyrra sem munu skila sér í öflugri þjónustu og betri lífsgæðum fyrir bæjarbúa. Þá nýtur bærinn nú góðs af mikilli uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis á undanförnum árum í auknum fasteignagjöldum. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að halda álögum á íbúa niðri og heldur hlutfall útsvars og fasteignaskatta af heildartekjum áfram að lækka,“ segir Rósa.

búar Hafnarfjarðar voru 30.616 í upphafi þessa árs miðað við endurbætta aðferð Hagstofu Íslands við mat á íbúafjölda á Íslandi.