Hafsilfur ehf., fjárfestingarfélag í eigu Benedikts Sveinssonar föður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, hagnaðist um 197 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins sem var umtalað í vor eftir þátttöku í útboði Bankasýslunnar á hlut í Íslandsbanka.

Eignir Hafsilfurs voru bókfærðar á 832 milljónir króna í lok síðasta árs. Eigið fé félagsins nam 623 milljónum króna í árslok 2021 samanborið við 425 milljónir árið áður.

Eignarhlutir Hafsilfurs í öðrum félögum nam 705 milljónum króna í lok árs 2021. Þar af átti félagið 253 milljóna hlut í Dögum, 140 milljóna hlut í Símanum og 140 milljóna hlut í Arion banka. Hafsilfur var þá með 92 milljóna króna hlut í stýringu hjá fagfjárfestasjóðnum Algildi.

Af 197 milljóna króna hagnaði ársins námu gangvirðisbreytingar hlutabréfa 126 milljónum króna á árinu. Til samanburðar nam sú breyting 19 milljónum árið áður. Þá nam hagnaður félagsins af sölu hlutabréfa 71 milljónum króna á árinu 2021 samanborið við 10 milljóna hagnað árið áður.