Hagnaður ÁTVR eftir skatta nærri helmingaðist á milli ára og nam 877 milljónum árið 2022 en var engu að síður umfram áætlun, að því er segir í nýbirtri ársskýrslu ÁTVR. Hagnaður ríkisfyrirtækisins hefur ekki verið minni frá árinu 2008.

Í skýrslu og áritun forstjóra segir að á árinu 2022 hafi rekstrarumhverfið orðið aftur eins og það var fyrir Covid.

Viðskiptavinafjöldi Vínbúðanna var um 5,2 milljónir og fækkaði um 5,3% á milli ára.

Tekjur ÁTVR drógust saman um 3,9 milljarða króna eða um 8,7% á milli ára og námu 41,1 milljarði króna árið 2022. Í lítrum dróst sala áfengis saman um 8,4%, í magni dróst sala vindlinga saman um 14,7% og selt magn neftóbaks dróst saman um 24% frá fyrra ári.

Rekstrarkostnaður ÁTVR lækkaði um 7,2% á milli ára og nam 40,1 milljarði. Þar vegur þyngst vörunotkun sem nam 35 milljörðum. Laun og launatengd gjöld voru um 3,4 milljarðar og jukust um 4,7% á milli ára en ársverkum fækkaði um 13 og voru 329.

Athygli vekur að stjórnunar- og skrifstofukostnaður jókst um 72 milljónir eða 19% á milli ára og nam 450 milljónum í fyrra. Hrein fjármagnsgjöld ÁTVR námu 68 milljónum í fyrra samanborið við 130 milljónir árið 2021.

Eignir ÁTVR voru bókfærðar á tæplega 8,8 milljarða króna í árslok 2022. Skuldir voru um 1,9 milljarðar og eigið fé var um 6,9 milljarðar. Greiddur var 500 milljóna króna arður í ríkissjóð í fyrra.

Úr gamaldags ríkisstofnun í margverðlaunað þjónustufyrirtæki

Ívar Arndal, sem hefur gegnt stöðu forstjóra ÁTVR frá árinu 2005, rekur upphaf og þróun ríkisrekinna áfengisverslana í ársskýrslunni í tilefni af því að ríkisfyrirtækið fagnaði hundrað ára starfsafmæli á síðasta ári.

Ívar segir að mikil umskipti hafi orðið á rekstri ÁTVR á síðustu árum og áratugum og þakkar starfsfólki fyrir þann árangur sem náðst hefur.

„Áður var verslunin gamaldags og íhaldssöm ríkisstofnun með fáum verslunum, litlu vöruúrvali, afgreiðslu yfir borð og starfsfólki í einkennisklæðum sem tóku mið af fatnaði lögreglu og tollvarða. Í dag er ÁTVR margverðlaunað þjónustufyrirtæki sem leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og góða þjónustu og er verslunin í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins.“