Hampiðjan sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun rétt fyrir tíuleytið í kvöld. Afkoma veiðafæraframleiðandans á síðasta ári, samkvæmt drögum að ársuppgjöri, var undir áætlun sem kynnt var samhliða almennu hlutafjárútboði félagsins í byrjun síðasta sumars.

„Ekki liggja fyrir lokatölur um hagnað ársins en ljóst er að hann verður merkjanlega lægri en á fyrra ári, einkum vegna hærri afskrifta og hærra grunnvaxtastigs en á fyrra ári,“ segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Hampiðjan sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun rétt fyrir tíuleytið í kvöld. Afkoma veiðafæraframleiðandans á síðasta ári, samkvæmt drögum að ársuppgjöri, var undir áætlun sem kynnt var samhliða almennu hlutafjárútboði félagsins í byrjun síðasta sumars.

„Ekki liggja fyrir lokatölur um hagnað ársins en ljóst er að hann verður merkjanlega lægri en á fyrra ári, einkum vegna hærri afskrifta og hærra grunnvaxtastigs en á fyrra ári,“ segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

EBITDA 450 milljónum undir neðri mörkum áætlunar

Hampiðjan áætlar að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA), leiðrétt fyrir einskiptisliðum tengdum skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar og kaupum á Mørenot, hafi verið um 40 milljónir evra á síðasta ári.

Til samanburðar gerði fyrrnefnd áætlun sem birt var í aðdraganda útboðsins ráð fyrir að EBITDA samstæðunnar yrði á bilinu 43 til 49 milljónir evra á árinu. Því er útlit fyrir að EBITDA-afkoma samstæðunnar hafi verið 3 milljónum evra, eða um 450 milljónum króna, undir neðri mörkum áætlunarinnar.

Fram kemur að einskiptiskostnaður tengdur Mørenot-kaupunum og skráningunni hafi numið um 3 milljónum evra.

Hampiðjan áréttar að niðurstaðan hafi ekki áhrif á birta langtímaáætlun félagsins fyrir árið 2027 sem gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 69-77 milljónir evra. Sú áætlun var einnig kynnt fjárfestum í maí síðastliðnum.

Erfiður fjórðungur hjá dótturfélagi Mørenot

Drög að uppgjöri Hampiðjunnar benda til að velta samstæðunnar hafi numið rúmum 320 milljónum evra í fyrra, eða um 48 milljörðum króna á gengi dagsins. Velta félagsins er innan þeirra áætluðu marka sem voru kynnt samhliða hlutafjárútboðinu.

Í tilkynningunni segir að rekstur Hampiðjunnar hafi gengið almennt vel í fyrra. Rekstur Mørenot, sem varð hluti af samstæðu Hampiðjunnar 1. febrúar 2023, gekk vel á fyrstu þremur ársfjórðungum 2023 að sögn stjórnenda Hampiðjunnar.

„[Á] síðasta ársfjórðungi ársins komu inn neikvæðir þættir, einkum frá dótturfélagi félagsins Mørenot Aquaculture, sem er þjónustufyrirtæki við fiskeldisiðnað,“ segir í tilkynningunni.

„Þá þætti sem eru þessu valdandi má meðal annars rekja til veðurfars í Noregi og þess að ekki tókst að halda uppi þjónustustigi í viðhaldsverkefnum þótt mikið af þeim lægju fyrir. Einnig var pöntunarstaða á nýjum fiskeldiskvíum á síðasta ársfjórðungi undir væntingum stjórnenda. Töluvert hefur þó áunnist í að bæta rekstur Mørenot Aquaculture frá fyrra ári og EBITDA hefur hækkað töluvert á milli ára.“

Hampiðjan áréttar að vinna við ársuppgjör sé enn í gangi og lykiltölur geti því tekið breytingum fram að birtingu þann 7. mars næstkomandi.