Hagnaður fjarskiptafyrirtækisins Nova nam 729 milljónum króna árið 2023, sem er aukning um 35% frá fyrra ári. Tekjur jukust um 2,8% milli ára og námu tæplega þrettán milljörðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu Nova Klúbbsins til Kauphallarinnar um uppgjörð fjórða ársfjórðungs og ársins 2023.

Sé aðeins horft til fjórða ársfjórðungs var vöxturinn þó aðeins minni en hagnaður jókst til að mynda um 3,9%, leiðrétt fyrir einskiptisliðum var tekjuvöxtur milli ára 0,05% og EBITDA hlutfallið var 28,9% en var 29,2% á sama tímabili 2022. Þjónustutekjur jukust um 3,4%, samanborið við 6,8% á ársgrundvelli.

Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum var þó 1.010 milljónir en var neikvætt um 110 milljónir á fjórða ársfjórðungi 2022. Eigið fé í árslok nam 9.277 milljónum króna í árslok og var eiginfjárhlutfall 40,04%.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir þau afskaplega stolt af niðurstöðu ársins 2023.

„Við héldum áfram að fjárfesta í innviðum til að tryggja að við séum í forystu á markaðnum. Við höfum líka lagt verulega áherslu á að fjölga í hópi ánægðra viðskiptavina í farsíma- og netþjónustu, og það hefur tekist með því öfluga starfsfólki sem hjá Nova starfar,” segir Margrét í tilkynningu.

„Vel heppnuð markaðssetning, góð þjónusta og forysta í innleiðingu nýjustu tækni hefur skilað Nova sterkri markaðshlutdeild og ánægðum og tryggum viðskiptavinum. Allir þessir þættir ásamt einstökum hópi starfsfólks hefur skilað félaginu miklum ávinningi og tekjuvexti undanfarin ár og er góður grunnur fyrir framtíðina.”