Hagnaður kínverska tæknifyrirtækisins Xiaomi var langt umfram væntingar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Samkvæmt WSJ átti sala snjallsíma stóran hluta í þeirri þróun.

Xiaomi greindi frá því í dag að hreinn hagnaður fyrirtækisins hafi verið um 577 milljónir dala. Upphæðin er svipuð og hún var í fyrra en mun meiri en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir.

Tekjur fyrirtækisins hækkuðu þá um 27% og voru um 10,3 milljarðar dala. Sala snjallsíma jókst þá um 33% og segir Xiaomi að það hafi selt um 40 milljónir snjallsíma á heimsvísu á tímabilinu. Tekjur af spjaldtölvum, sjónvarpstækjum og fartölvum jukust einnig um 21%.

Xiaomi hefur einnig nýlega fært sig yfir á bílamarkaðinn og stefnir nú að því að afhenda um tíu þúsund rafbíla af tegundinni SU7 en sá bíll fór á markað í mars.