Hagvöxtur, þ.e. breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, var 4,1% á árinu 2023 samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga Hagstofunnar. Áætlað er að nafnvirði vergrar landsframleiðslu hafi numið 4.279 milljörðum króna.

Hagvöxtur, þ.e. breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, var 4,1% á árinu 2023 samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga Hagstofunnar. Áætlað er að nafnvirði vergrar landsframleiðslu hafi numið 4.279 milljörðum króna.

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári hafi verið raunaukning þjónustuútflutnings um 9,8%. Jafnframt hafi hagstæðari vöruviðskipti og aukin sam- og einkaneysla skilað jákvæðu framlagi.

Þjóðarútgjöld, þ.e. samtala neyslu, fjármunamyndunar og birgðabreytinga, jukust um 1,2% að raungildi samanborið við 8,4% aukningu á milli áranna 2021 og 2022.

Fram kemur að á fjórða ársfjórðungi hafi hægst á vexti hagkerfisins en aukning landsframleiðslunnar á fjórðungnum mældist 0,6% samanborið við sama tímabil á árinu 2022. Árstíðaleiðrétt breyting landsframleiðslunnar á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs mælist 0,9% að raungildi.

Hagvöxtur árið 2022 var 8,9% en ekki 7,2%

Samhliða útgáfu landsframleiðslunnar fyrir árið 2023 hefur Hagstofan endurskoðað áður útgefnar tölur fyrir árin 2020-2022.

Fram kemur að hagvöxtur árið 2022 hafi verið 8,9% í stað 7,2% í áður birtum tölum. Árið 2021 var vöxtur landsframleiðslunnar 5,1% en ekki 4,5% og árið 2020 er nú áætlað að landsframleiðslan hafi dregist saman um 6,9% að raungildi frá fyrra ári samanborið við samdrátt upp á 7,2% í áður birtum tölum.

„Hér hefur mest áhrif endurskoðun á fjármunamyndun atvinnuveganna sem var töluvert vanmetin í fyrri útgáfum. Endurskoðun hagtalna byggir á uppfærðum og nákvæmari gögnum um fjármunamyndun aðgengilegum undir lok árs 2023. Einnig hafði endurskoðun á einkaneyslu og útflutningi minniháttar áhrif á áður útgefnar tölur.“