Hampiðjan gekk í upphafi árs frá kaupum á bréfum minnihlutaeiganda í dótturfélaginu Swan Net USA, sem rekur eitt stærsta netaverkstæði Bandaríkjanna í Seattle, og á Hampiðjan nú félagið að fullu. Kaupverðið var greitt á yfirstandandi ársfjórðungi.

Í árshlutareikningi Hampiðjunnar fyrir fyrsta ársfjórðung, sem var birtur eftir lokun Kauphallarinnar, kemur fram að ógreiddar skammtímaskuldir vegna kaupa á minnihluta í Swan Net USA hljóði upp á 2,7 milljónir evra eða tæplega 400 milljónir króna.

„Árið 2014 var gengið frá kaupum Hampiðjunnar á 67% hlut í netaverkstæðinu Swan Net USA í Seattle og í kjölfarið var rekstur Hampidjan USA sameinaður við Swan Net USA og úr varð stærsta og öflugasta netaverkstæði Bandaríkjanna fyrir flottroll,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, í afkomutilkynningu.

„Á þeim tíma var samið um að Hampiðjan myndi eignast fyrirtækið að fullu þegar meðeigandi okkar, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins, færi að huga að eftirlaunaárunum. Á þessum árum hefur Hampiðjan eignast stærri hlutdeild og um áramótin var hún komin í 75%. Nú hefur verið gengið frá kaupum á 25% hlut framkvæmdastjórans og er félagið nú alfarið í eigu Hampiðjunnar. Hann mun engu að síður starfa áfram með okkur næstu árin að rekstri og frekari uppbyggingu fyrirtækisins.“

„Fyrsti ársfjórðungur kom ágætlega út

Hampiðjan hagnaðist um 2,7 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi eða sem nemur 409 milljónum króna. Til samanburðar hagnaðist félagið um 2,2 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Sölutekjur Hampiðjunnar jukust um 6,4% milli ára og námu 78,3 milljónum evra eða um 11,7 milljörðum króna á fjórðungnum. Þess má geta að norska félagið Mørenot varð formlega hluti af samstæðu Hampiðjunnar þann 1. febrúar 2023.

„Fyrsti ársfjórðungur ársins kom ágætlega út með 6,4% söluaukningu miðað við sama fjórðung síðasta árs þrátt fyrir að ársbyrjunin hafi markast af loðnuleysi og deyfð í sölu á nýjum fiskeldiskvíum í Noregi,“ segir Hjörtur.

Rekstrarhagnaður Hampiðjunnar fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 3% og nam 8,3 milljónum evra eða um 1,2 milljörðum króna.

„EBITDA hlutfallið sem var 10,9% á fyrsta fjórðungi síðasta árs reyndist vera aðeins lægra eða 10,6% og eru það aðallega nýju félögin í samstæðunni í Noregi sem halda hlutfallinu niðri. Án þeirra félaga væri hlutfallið rúmlega 14%,“ segir Hjörtur.

„Við því var búist enda einungis eitt ár síðan félögin voru tekin yfir og vinna við hagræðingu stendur enn yfir og sem mun skila sér á næstu misserum.“

Hjörtur segir að miklir möguleikar séu til hagræðingar innan heildarsamstæðunnar á næstu misserum og árum. Við kaupin á Mørenot var ætlað að það myndi taka 5 ára að ná fullri samlegð og miðar það verkefni vel áfram að hans sögn.