Hampiðjan hefur birt lýsingu vegna almenns útboðs og fyrirhugaðrar skráningar á aðalmarkað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar. Félagið hefur verið skráð á First North markaðnum frá árinu 2007.
85 milljón nýir hlutir í félaginu verða boðnir til sölu í almennu útboði, sem jafngildir 13,37% af heildarhlutafé eftir hlutafjárhækkun þess efnis.
Almenna útboðið skiptist í tvær áskriftarbækur. Annars vegar áskriftarbók A, þar sem 17 milljón nýir hlutir verða boðnir til sölu á föstu verði 120 kr. á hlut, og hins vegar áskriftarbók B, þar sem 68 milljón nýir hlutir verða boðnir til sölu á lágmarksverði 120 kr. á hlut.
Lágmarksverðið í almenna útboðinu, 120 kr. á hlut, jafngildir 14% afslætti á vegið meðalverð (VWAP) hlutabréfa Hampiðjunnar á First North Iceland síðasta mánuðinn.
Áskriftartímabil hefst kl 10:00 að íslenskum tíma þann á morgun, 25. maí, og stendur til kl 14:00 þann 2. júní 2023. Gert er ráð fyrir að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði þann 9. júní nk., að því gefnu að Nasdaq Iceland samþykki umsókn félagsins um töku til viðskipta fyrir þann tíma.
Fyrirhugað er að um 60% af ágóða almenna útboðsins verði nýttur til endurskipulagningar á langtímaskuldum Mørenot og að 40% verði nýtt í fjárfestingar til að nýta samlegðartækifæri tengd kaupunum.
„Mørenot er töluvert skuldsett og fjármagna þarf frekari uppbyggingu og afkastagetu Hampidjan Baltic til að geta sinnt þörf Mørenot fyrir net, kaðla og ofurtóg,“ sagði Hjörtur Erlendsson forstjóri í tilkynningu frá félaginu í kjölfar birtingu ársuppgjörs félagsins í mars síðastliðnum.
Ítarlega er fjallað um skráningu Hampiðjunnar á aðalmarkað í Viðskiptablaðinu sem kemur út á föstudaginn, 26. maí. Blaðið verður opið áskrifendum kl 19:30 annað kvöld.