Árið 2005 var undirritaður kaupsamningur milli íslenska ríkisins og Skipta hf. um kaup á 98,8% hlut ríkisins í Landsímanum, félagið var í kjölfarið skráð í Kauphöll Íslands. Kaupverðið nam 66,7 milljörðum króna, sem samsvarar um 150 milljörðum m.v. núverandi verðlag. Markaðsvirði Símans er hinsvegar í dag um 80 milljarðar króna m.v. gengið 11,3 krónur á hlut.  Skipti hf. móðurfélag Símanss var bæði eigandi og rekstraraðili grunnfjarskiptakerfis landsins sem veitti Símanum gríðarlegt samkeppnisforskot á fjarskiptamarkaði, enda voru keppinautar á smásölumarkaði óhjákvæmilegir viðskiptavinir samstæðunnar.

Frá einkavæðingu Símans hefur umhverfi fjarskipafyrirtækja breyst mikið, þá sérstaklega með innkomu 3G árið 2006 og svo með stofnun Nova  árið 2007. Síminn hefur farið frá því að vera markaðsráðandi en í dag eru Nova, Vodafone og Síminn með mjög sambærilega markaðshlutdeild í smásölu. Ljósleiðarinn, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur hefur sömuleiðis breytt umhverfi gagnaflutnings í samkeppni við Mílu.

Á árunum 2005 – 2012 ákvarðaði SKE 7 sinnum vegna brota Símans á samkeppnislögum, álagðar sektir námu á tímabilinu alls 705 m.kr, en voru mildaðar fyrir áfrýjunarnefnd og dómstólum niður í 550 m. kr. Á tímabilinu hleypti SKE tveimur samrunum óhindrað í gegn og sektaði Símann og Landsvirkjun einu sinni fyrir ólögmætt samráð. Því til viðbótar var hnýtt í Símann fimm sinnum fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu á tímabilinu. Meðal brota voru sértækar verðlækkanir sem beindust að viðskiptavinum sem ætluðu sér að skipta um fjarskiptafyrirtæki, óeðlileg notkun á trúnaðarupplýsingum viðskiptavina og skaðleg undirverðlagning í formi ókeypis 3G netlykils gegn sex mánaða bindingu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.