Olís, dótturfélag Haga, og Festi tilkynntu 1. desember sl. að félögin væru að kanna framtíðarmöguleika hvað varðar eignarhluti félaganna í Olíudreifingu ehf., Eldsneytisafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli ehf. (EAK) og EBK ehf.

Í tilkynningum Haga og Festi til Kauphallarinnar nú síðdegis er greint frá því að félögin hafi komist að samkomulagi um að hefja undirbúning sölumeðferðar á eignarhlutum félaganna í innviðafélögunum.

Olíudreifing er alfarið í eigu félaganna tveggja en Festi fer með 60% hlut og Olís með 40%. Þá fara félögin hvor um sig með 33,3% hlut í EAK og 25% hlut í EBK.

Festi og Hagar réðu Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka til ráðgjafar í byrjun desember en þá kom fram að til stæði að kanna mögu­leika á breyttu eignar­haldi, eftir at­vikum í sam­vinnu við aðra hlut­hafa EAK og EBK, með það að mark­miði að há­marka verð­mæti hlut­hafa, ein­falda eignar­haldið og um leið tryggja hag­fellda fram­tíðar­þróun inn­viða þeirra.

Ekki er greint frá því í tilkynningunni í dag hvaða leið verði farin en nánar verði upplýst um framgang málsins um leið og tilefni sé til.

Að því er segir í tilkynningunni eru félögin mikilvæg innviðafélög hvað varðar birgðahald og dreifingu á eldsneyti á Íslandi. Meginstarfsemi Olíudreifingar er birgðahald og dreifing á eldsneyti um land allt en meginstarfsemi EAK og EBK er birgðahald og dreifing á flugvélaeldsneyti á Keflavíkurflugvelli.