Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra, fyrir hönd ÍL-sjóðs og íslenska ríkisins, og fulltrúar 18 lífeyrissjóða, sem saman fara með stærstan hluta skuldabréfa sem ÍL-sjóður er útgefandi að, hafa ákveðið að hefja viðræður um uppgjör á skuldabréfum sjóðsins.

„Markmið við­ræðnanna er að ná samkomulagi sem felur í sér að skuldabréfin verði gerð upp að fullu og skilyrði sköpuð fyrir slitum ÍL-sjóðs,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

LSR og LIVE ekki með

Upphaf viðræðna milli ráðuneytisins og lífeyrissjóðanna átján er ákveðin kúvending en sjóðirnir höfðu hafnað því að ganga til viðræðna við fjármálaráðuneytið alveg frá því Bjarni Benediktsson kynnti fyrst skýrslu og hugmyndir um slit og uppgjör ÍL-sjóðs í október 2022.

Athygli vekur að Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), tvær stærstu lífeyrissjóðir landsins, eru ekki meðal framangreindra átján sjóða.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að LIVE hafi ákveðið að taka ekki þátt í viðræðunum og LSR treystir sér ekki til taka ákvörðun um þáttöku sína að svo stöddu.

Eftirfarandi lífeyrissjóðir taka þátt í viðræðunum:

 • Almenni lífeyrissjóðurinn
 • Birta lífeyrissjóður
 • Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga
 • Eftirlaunasjóður F.Í.A.
 • Festa lífeyrissjóður
 • Frjálsi lífeyrissjóðurinn
 • Gildi lífeyrissjóður
 • Íslenski lífeyrissjóðurinn
 • Lífeyrisauki, séreignasjóður
 • Lífeyrissjóður bankamanna
 • Lífeyrissjóður Rangæinga
 • Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf.
 • Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar
 • Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands
 • Lífsverk lífeyrissjóður
 • Lífeyrissjóður Vestmannaeyja
 • Stapi lífeyrissjóður
 • Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Fjármálaráðuneytið lauk í byrjun mánaðarins og í desember sl. tveimur skiptiútboðum HFF-skuldabréfa ÍL-sjóðs.