Rekstrarleyfissamningur Fríhafnarinnar ehf. á Keflavíkurflugvelli rennur út í maímánuði og mun félagið þá hætta starfsemi á vellinum. Áformað er að Heinemann taki við rekstur fríhafnaverslana á Keflavíkurflugvelli á fyrri hluta maímánaðar.

Isavia, móðurfélag Fríhafnarinnar, gerði í janúar samning við Heinemann til átta ára um sérleyfi til reksturs fríhafnarverslana á Keflavíkurflugvelli, með möguleika á framlengingu um tvö ár til viðbótar, í kjölfar útboðsferlis á rekstri verslananna þar sem Heinemann varð hlutskarpast.

Í nýbirtum ársreikningi Fríhafnarinnar kemur fram að þegar félagið hættir starfsemi og nýr rekstraraðili tekur við muni starfsfólk Fríhafnarinnar og skuldbindingar vegna starfsfólksins flytjast yfir til nýs rekstraraðila á grundvelli laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Jafnframt kemur fram að þegar sé tryggður kaupandi að birgðum og stærstum hluta eigna félagsins.

Í tilkynningu Isavia í janúar þegar tilkynnt var um að samninginn við Heinemann kemur fram að lögð hafi verið áhersla í ferlinu á að farþegar á Keflavíkurflugvelli upplifi það sterklega hjá nýjum sérleyfishafa að þeir séu staddir á Íslandi þegar þeir fara um fríhafnarverslanirnar. Það sé m.a. gert með miklu úrvali af íslenskum vörum og hönnun verslananna.

Áætlað er að endurnýjun verslananna muni fara fram á næsta árið og er stefnt á að framkvæmdum ljúki fyrir sumarið 2026. Farþegar muni þó sjá strax við yfirfærsluna ákveðinn blæbrigðamun.

Heinemann rekur fjölda verslana um allan heim, m.a. fríhafnarverslanirnar á Gardermoen-flugvelli í Osló og Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.

Greiða út hálfan milljarð

Fríhöfnin hagnaðist um 410 milljónir króna árið 2024 samanborið við 501 milljónar króna hagnað árið áður. Vörusala félagsins jókst um 2,6% milli ára og nam tæplega 15 milljörðum króna.

Rekstrarkostnaður nam 14,4 milljörðum króna, þar af laun og annar starfsmannakostnaður 1,8 milljörðum. Ársverk voru 134 í fyrra samanborið við 124 árið 2023.

Eignir Fríhafnarinnar voru bókfærðar á tæplega 3 milljarða króna í árslok 2024. Eigið fé var um 1,5 milljarðar og eiginfjárhlutfall félagsins var 51%. S

tjórn félagsins lagði til að greiddur verði 500 milljóna króna arður í ár.