Frumkvöðlarnir Davíð Helgason og Haraldur Þorleifsson hafa báðir heitið stórum framlögum til Úkraínu vegna innrásar Rússlands. Báðir ákváðu þeir að jafna framlög almennings og fari svo að full að mótframlög náist munu þeir safna allt að 140 milljónum króna með þessu framtaki.

Davíð, sem er meðstofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Unity, tilkynnti í gær að hann muni jafna framlög fyrir allt að 500 þúsund dali, eða sem nemur 63,5 milljónum króna, til varnar Úkraínu. Davíð segir í færslu á Facebook að fólk megi velja eigin samtök eða stofnun til að styrkja en hann hyggst sjálfur leggja inn á sérstakan fjáröflunarreikning sem úkraínski seðlabankinn opnaði til stuðnings hersins þar í landi.

„Úkraínsku systkini okkar eru að heyja ótrúlegan bardaga fyrir okkur öll. Það minnsta sem við getum gert er að styðja þau fjárhagslega,“ skrifar Davíð.

Í athugasemd undir færsluna segir Davíð að hann hafi þegar fengið skilaboð um framlög að fjárhæð 80 þúsund dala, eða um 10 milljónir króna.

„PS. rússnesk herskip, farið til fjandans,“ segir Davíð að lokum og vitnar þar í úkraínska hermenn sem létu lífið við að verja úkraínsku eyjuna Zmiinyi í Svartahafinu .

Haraldur safnaði 6,4 milljónum króna fyrir Rauða krossinn

Á föstudaginn síðasta lýsti Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, að hann myndi jafna framlög og gefa allt að 10 þúsund dali til Úkraínudeildar Rauða krossins. Degi síðar upplýsti hann á Twitter að hann hafi fengið yfir 240 kvittanir um framlög fyrir tæplega 25 þúsund dali, eða um 3,2 milljónir króna.

Haraldur ákvað því að hækka eigin framlag upp að 25 þúsund dala markinu og því safnaðist um 50 þúsund dalir eða um 6,4 milljónir króna fyrir Rauða krossinn með þessu framtak hans.