Peningastefnunefnd svissneska seðlabankans hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 1,75%, samkvæmt yfirlýsingu nefndarinnar í morgun.
Hagfræðingar höfðu spáð 25 punkta hækkun í 2% stýrivexti en bankinn taldi slíkt vera óþarfi en verðbólga í Sviss hefur lækkað verulega á síðustu mánuðum.
Ársverðbólga í Sviss mældist 1,6% í ágústmánuði. Að mati nefndarinnar hafa þrengingar í peningastefnu síðustu ársfjórðunga þrýst verðbólgunni niður.
Í yfirlýsingu bankans segir þó að nefndin útiloki ekki frekari vaxtahækkanir á árinu til að tryggja verðjafnvægi yfir veturinn.
Svissneski frankinn féll um 0,7% gagnvart Bandaríkjadal í kjölfar ákvörðunarinnar.