Samkvæmt Þjóðarpúlskönnun Gallup ferðaðist ríflega helmingur landsmanna til útlanda í sumar. Í fyrrasumar fór hins vegar þrír af hverjum fimm landsmönnum til útlanda.

Í könnun Gallup segir jafnframt að hlutfallið hafi ekki verið lægra síðan fyrir átta árum ef frá eru talin árin sem heimsfaraldurinn geisaði.

Árið 2015 svöruðu 47% Íslendinga því játandi þegar þau voru spurð hvort þau hefðu farið til útlanda og hækkaði sú tala fram að Covid en sumarið 2020 fóru aðeins 6% Íslendinga til útlanda. Ári seinna var hlutfallið komið upp í fjórðung og í fyrra fóru 60% til útlanda en í sumar var hlutfallið 53%.

Fólk milli fertugs og sextugs ferðaðist helst til útlanda í sumar og íbúar höfuðborgarsvæðisins frekar en landsbyggðarinnar. Háskólamenntaðir og fólk með hærri fjölskyldutekjur ferðaðist einnig að jafnaði frekar til útlanda en fólk með minni menntun og lægri tekjur.

Þá kemur einnig fram að tvö af hverjum þremur ferðuðust innanlands í sumar, eða 67%. Til samanburðar sögðust 82% aðspurðra hafa ferðast innanlands en fór það hlutfall svo að lækka með árunum eftir afléttingar.

Ferðalangar gistu þá að meðaltali 15 nætur á utanlandsferðum sínum en 9 nætur á ferðum sínum innanlands.