Stjórn Myllunnar - Ora ehf. og Hermann Stefánsson hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í fréttatilkynningu segir að Hermann hafi leitt félagið á miklum umbreytingartímum sl. sex ár. Á þeim tíma hafi flestar starfsstöðvar félagsins verið fluttar á Korputorg, heildsölustarfsemi ÍSAM verið sameinuð Ó. Johnson & Kaaber og rekstur Ora verið endurskipulagður.

„Félagið stendur því á ákveðnum tímamótum og eru aðilar sammála um að nú sé réttur tími til að gera breytingar á framkvæmdastjórn félagsins,“ segir í fréttatilkynningu þar sem Hermanni er þakkað fyrir vel unnin störf og honum óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Einar Sigurðsson, stjórnarformaður félagsins, mun ásamt Kristjáni Theódórssyni annast framkvæmdastjórn þess þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn.