Félag íslenskra kvenna í atvinnulífinu í Kaupmannahöfn (FKA-DK) fagnaði Kvennafrídeginum síðastliðinn sunnudag með hátíð í sendiherrabústaðnum í boði sendiherra Íslands, Helgu Hauksdóttur. Í annað sinn í sögu félagsins voru Hvatningarverðlaun FKA-DK veitt íslenskri konu í Danmörku sem sýnt hefur frumkvæði, styrk og verið öðrum konum hvatning í starfi.

Viðurkenninguna í ár hlaut Herdís Steingrímsdóttir, vinnumarkaðshagfræðingur og dósent við Copenhagen Business School (CBS). Herdís á fjölmörg ár að baki í Danmörku en áður sinnti hún náms- og fræðistörfum við Columbia háskóla í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FKA-DK.

Fram kemur að Herdís hafi nýverið hlotið 120 milljóna íslenskra króna styrk til að sinna rannsókn á fæðingarorlofsmálum og verkaskiptingu foreldra á heimilinu, bæði á Íslandi og í Danmörku. Í tilkynningunni segir að málefnið sé mikilvægt, það eigi ríkt erindi við samfélagið og falli vel að þeim markmiðum sem FKA-DK vinnur að.

Alls hlaut 21 kona tilnefningu í ár, en tilnefningar voru nafnlausar og fóru fram í gegnum heimasíðu félagsins. Dómnefnd skipuðu Helga Hauksdóttir sendiherra, Vigdís Finnsdóttir, fyrrum verðlaunahafi (2019), og Auður Kristín Welding, fyrrum stjórnarmeðlimur FKA-DK.

Árið 2019 hlaut Vigdís Finnsdóttir, meðeigandi Retreat og Boutique Fisk, verðlaunin, en í tilkynningunni kemur fram að Vigdís og Herdís hafi báðar sýnt ótrúlega seiglu og þurft að berjast fyrir sínu á ýmsum vígstöðvum. Veiting verðlaunanna til Herdísar sýni breiddina í félaginu, því ekki er aðeins horft til kvenna sem hafa náð langt í eigin rekstri, heldur koma fleiri atvinnugreinar til álita í þeim efnum.

Um Félag kvenna í atvinnulífinu í Danmörku

Frá árinu 2014 hafa íslenskar konur í atvinnulífinu í Danmörku hist reglulega með það að markmiði að styrkja tengslanet og efla sýnileika kvenna í atvinnulífinu. Félagsskapurinn telur nú yfir 900 íslenskar konur en félagskonum býðst að taka þátt í fjölbreyttu starfi allt árið um kring, oft í Jónshúsi þar sem boðið er upp á fyrirlestra, námskeið og annað, en einnig í formi fyrirtækjaheimsókna. Þar bjóða íslenskar konur, sem gegna áhugaverðum störfum í fjölmörgum geirum, í heimsókn í fyrirtæki og segja frá störfum sínum. Félagið heldur einnig úti hlaðvarpi, „Damerne Først!", og á hverjum miðvikudegi skyggnist félagið inn í starfsheim íslenskrar konu í Danmörku í gegnum svokallað „Instagram takeover" undir yfirskriftinni „Filterslaus vinnudagur". Hægt er að kynna sér starfsemina á heimasíðu félagsins.

Í tilkynningunni segir að mikill áhugi sé fyrir viðburðum á vegum FKA-DK og að það séu ávallt færri sem komast að en vilja. Því sé ljóst að þörfin fyrir tengslanet íslenskra kvenna erlendis er til staðar.