Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,8% í 3,8 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Íslandsbanka, eða um 820 milljónir, sem hækkuðu um 0,7%. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 116,4 krónum á hlut.

Fjarskiptafélögin Sýn og Síminn hækkuðu mest af félögum Kauphallarinnar. Gengi Sýnar hækkaði um 4,6%, þó aðeins í 50 milljóna viðskiptum. Hlutabréfaverð Símans hækkaði um 4,2% í 360 milljóna veltu og stendur nú í 11,15 krónum.

Auk fjarskiptafélaganna þá hækkuðu hlutabréf Ölgerðarinnar, Iceland Seafood og Eimskips um meira en 2%.

Það var hins vegar Amaroq Minerals, sem er skráð á First-North markaðnum, sem hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar. Gengi hlutabréfa auðlindafélagsins hækkaði um 5,6% í 162 milljóna viðskiptum og stendur nú í 76 krónum á hlut.

Amaroq tilkynnti í morgun að félagið hefði gengið frá 7 milljarða króna lánsfjármögnun sem verður nýtt til að hefja gullvinnslu í Nalunaq námunni í Grænlandi. Félagið sagðist einnig hafa til skoðunar að flytja sig yfir af First North-markaðnum yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar.

Sjö félög aðalmarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins. Alvotech lækkaði mest eða um 4% í hundrað milljóna viðskiptum. Gengi líftæknifyrirtækisins stendur nú í 1.830 krónum.