Hlutabréf ZTE og annarra kínverskra fjarskiptafyrirtækja tóku á flug eftir að tíu þjóðir gáfu út sameiginlega stuðningsyfirlýsingu um þróun á meginreglum alþjóðlegra 6G netkerfa.

Gengi ZTE hækkaði um 10% í Shenzhen og 11% í Hong Kong. Þá hækkuðu hlutabréf rafeindaframleiðandans Shaanxi Huada Science Technology um 20%.

Yfirlýsingin sem kom frá löndunum tíu, þar á meðal Bandaríkjunum, Bretlandi og Japan, styður við meginreglur þjóðaröryggis, friðhelgi einkalífs og annarra atriða þegar kemur að þróun alþjóðlegra 6G netkerfa.

„Við teljum að þetta sé ómissandi framlag til að geta byggt upp öruggari, friðsamlegri og sjálfbærari framtíð fyrir alla. Við skorum á önnur stjórnvöld, samtök og hagsmunaaðila að sameinast með okkur í að styðja og viðhalda þessum meginreglum,“ segir í yfirlýsingunni.

ZTE hefur verið virkur þátttakandi í rannsóknum á þróun 6G tækni og hefur meðal annars gefið út skýrslur sem greina frá ýmsum 6G sviðsmyndum.