Almennt hlutafjárútboð Íslandshótela hófst í dag en 41,7% af útgefnu hlutafé félagsins er til sölu í tveimur tilboðsbókum. Eigendur og stjórn Íslandshótela hafa tilkynnt að samhliða útboðinu og skráningu félagsins á markað, verði öllu fastráðnu starfsfólki afhentir hlutir í félaginu að gjöf.

632 starfsmenn Íslandshótela fá þannig hlutabréf í félaginu að gjöf og fer fjárhæð gjafarinnar eftir starfsaldri starfsmanna og er mest 500.000 kr. miðað við lágmarksgengið 50,0 kr. á hlut. Um er að ræða 3.040.000 hluti sem þannig verða afhentir starfsmönnum að markaðsvirði 152.000.000 króna.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að afhenda starfsfólki okkar að gjöf hluti í Íslandshótelum. Við erum með þessum hætti að sýna þakklæti okkar í verki og undirstrika þeirra mikilvæga framlag til Íslandshótela og framtíðar þess,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela.

Íslandshótel munu jafnframt greiða starfsfólki sínu aukagreiðslu til að vega á móti skattalegum áhrifum gjafarinnar og nemur sú upphæð um 100 milljónum króna. Hlutum til starfsmanna verður dreift eftir að útboði lýkur þann 22. maí nk. og fyrir töku hlutabréfa til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland þann 30. maí. nk.

Eins og fram hefur komið hófst almennt útboð á hlutabréfum félagsins í dag, en til sölu verða 257.209.972 hlutir, eða sem samsvara 41,7% af útgefnu hlutafé Íslandshótela hf. Í boði eru tvær tilboðsbækur sem eru ólíkar hvað varðar stærð áskrifta, verðlagningu og úthlutunarreglur. Tilboðsbók A fyrir áskriftir frá 100 þ.kr. til 20 m.kr. og tilboðsbók B fyrir áskriftir yfir 20 m.kr. Í tilboðsbók A verða boðnir til sölu 51.441.994 hlutir (20% af stærð útboðsins) og í tilboðsbók B verða 205.767.978 hlutir (80% af stærð útboðsins) boðnir til sölu.

Verð á hlut í útboðinu er 50,0 kr. í tilboðsbók A en í tilboðsbók B er lágmarkstilboð 50,0 kr. fyrir hvern hlut. Fyrsti viðskiptadagur á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. er áætlaður 30. maí 2024.

Opinn kynningarfundur vegna útboðsins verður haldinn fimmtudaginn 16. maí kl. 10:00. Fundurinn verður haldinn á Hótel Reykjavík Grand í salnum Háteigi en fundurinn verður einnig í vefstreymi sem verður aðgengilegt á vef Íslandsbanka, Kviku og á vefsíðu Íslandshótela.