Breska hraðhleðslufyrirtækið InstaVolt tók nú síðdegis í notkun stærsta hraðhleðslugarð á Íslandi. Hleðslugarðurinn er staðsettur við Aðaltorg í Reykjanesbæ, skammt frá Keflavíkurflugvelli.

Alls hafa verið settar upp 20 hleðslustöðvar við Aðaltorg sem knúnar eru af HS Orku en gert er ráð fyrir 200 nýjum InstaVolt hleðslustöðvum víðs vegar um land á næstu tveimur árum.

„Íslandi hefur tekist vel til í orkuskiptum í samgöngum á landi og er í öðru sæti á eftir Noregi í sölu á rafbílum og tengiltvinnbílum. Eigi Ísland að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um full orkuskipti fyrir árið 2040 verðum við að hraða orkuskiptunum. Fjölgun hraðhleðslustöðva ætti að auðvelda okkur að ná þeim markmiðum okkar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Árið 2022 var um 14% af farþegabílaflota landsins orðinn rafvæddur og var markaðshlutdeild rafbíla á Íslandi í kringum 60%. Í tilkynningu segir að Ísland henti vel til rafbílavæðingar þar sem akstursleiðir eru ekki langar miðað við það sem þekkist erlendis og nægt framboð er af endurnýjanlegri raforku. Áætlað er að samgöngur á landi séu um 20% af allri kolefnislosun landsins.

„Ég er mjög stoltur af þeim áfanga sem InstaVolt og HS Orka hafa náð hér í dag. Framúrskarandi verkefnateymi beggja fyrirtækja hafa skapað tækifæri sem styðja vel við innviðauppbyggingu fyrir rafbílaflota landsins,“ segir Adrian Pike, stjórnarformaður InstaVolt og jafnframt stjórnarformaður HS Orku.