Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,4% í 4,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan, eða um 1,3 milljarðar, voru með bréf Alvotech sem hækkuðu um hálft prósent. Gengi lyfjalíftæknifyrirtækisins stóð í 2.200 krónum við lokun Kauphallarinnar.

Sennilegt er að fjárfestar bíði spenntir eftir upplýsingum um umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT02, hliðstæðu við Humira, í Bandaríkjunum.

Félagið tilkynnti fyrir fimm vikum að Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefði gert eina athugasemd í lok úttektar á framleiðsluaðstöðu Alvotech í Reykjavík. Alvotech sagðist vera þeirrar skoðunar að félagið ætti að uppfylla skilyrði fyrir markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir AVT02 eigi síðar en á morgun, 24. febrúar.

Fimm félög aðalmarkaðarins hækkuðu um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins. Hlutabréf Íslandsbanka hækkuðu mest eða um 2,8% í 214 milljóna veltu. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 112 krónum. Gengi Arion hækkaði næst mest eða um 2% í 820 milljóna veltu og nemur nú 155 krónum.

Sex félög aðalmarkaðarins lækkuðu í dag. Marel lækkaði mest eða um 1,4% í 400 milljóna veltu. Gengi félagsins stendur nú í 489 krónum á hlut.