Það er mjög gaman að geta kynnt þessa könnun á SFF deginum. Hún sýnir að hreyfanleiki neytanda á fjármálamarkaði á Íslandi er mun meiri en hjá Norðurlöndunum og ESB ríkjunum,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sem hélt erindi á SFF deginum fyrr í dag.

Könnunin, sem SFF lét gera í gegnum Gallup, mælir annars vegar hreyfanleika neytenda með mismunandi vörur á fjármálamarkaði, t.d. sparnað, húsnæðislán og greiðslukort, og hins vegar samanlagaðan hreyfanleika.

Þegar könnunin er borin saman við sambærilega könnun sem Gallup gerði fyrir Evrópuráðið, má sjá að hreyfanleikinn er mun meiri á íslenskum fjármálamarkaði. Samanlagður hreyfanleiki neytenda mælir hlutfall þeirra sem hafa skipt um þjónustuaðila einhverrar vöru á fjármálamarkaði.

Þannig kemur m.a. fram að samanlagður hreyfanleiki neytenda með vörur á fjármálamarkaði, þ.e. sparnað, húsnæðislán og greiðslukort, mælist 48% á síðustu fimm árum hér á landi. Til samanburðar mælist hann innan 29% í ESB löndunum og 31% hjá Norðurlandaþjóðunum. 

Þegar litið er til einstakra vara á fjármálamarkaði má sjá að hreyfanleiki íslenskra neytenda mælist 21% bæði með sparnaðarreikninga og greiðslukort. Á sama tíma er meðalhreyfanleiki neytenda í ESB ríkjunum 13% með sparnaðarreikninga og 15% með greiðslukort. Þá mælist einnig mikill munur á hreyfanleika á húsnæðislánum, þar sem 17% þeirra sem svöruðu könnuninni hér á landi sögðust hafa skipt um þjónustuaðila samanborið við 11% hjá ESB ríkjum.

„Við sjáum að hreyfanleiki er mun meiri á húsnæðislánum hér á landi en hjá ESB ríkjunum. Það er eitthvað sem neytendur hér ættu að geta tengt við. Endurfjármögnun er að gerast með mun styttri tíma en áður og fólk fer einfaldlega þangað þar sem kjörin eru best. En hreyfanleikinn er líka mikill á sparnaðarreikningum og greiðslukortum.“

Nánar er rætt við Benedikt í sérblaði Viðskiptablaðsins um SFF daginn. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild hér.