Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum, segir kreppuverðbólgu ekki í kortunum þrátt fyrir að hægst hafi á hagkerfinu. Hins vegar sé það áhyggjuefni hversu mikið við Íslendingar treystum á ferðamannaiðnaðinn.

„Oft kemur kreppa nú í fram­haldi af mikilli ó­venju­lega mikilli þenslu og það eru ekki teikn á lofti um ó­venju­lega mikla þenslu. Þetta veltur auð­vitað mikið á ferða­manna­iðnaðinum,“ segir Már Wolf­gang.

„Það má segja að það sé ákveðinn þröskuldur að það sé ekki byggt nógu mikið af húsnæði hér. Það er í raun ákveðinn flöskuháls þar sem hagvöxturinn er að mörgu leyti keyrður áfram af nýjum Íslendingum og ef það er ekki til húsnæði fyrir fleiri nýja Íslendinga þá dregur það úr spennunni.“

Að mati Más eru ekki vísbendingar eða teikn á lofti um hér sé alvarleg ofþensla en það muni taka tíma að vinda ofan af verðbólgunni.

„Þessi verðbólga, líkt og hefur komið fram margoft, er að að mörgu leyti innflutt. Skýrist af Covid-áhrifum, stríðsáhrifum og hækkandi verðlagi erlendis sem hefur myndað ákveðið höfrungahlaup. Það virðist taka tíma að vinda ofan af því,“ segir Már Wolfgang

Hann bendir á að seinasta stóra kreppuverðbólgan var á áttunda áratugnum þegar olíuverð rauk upp úr öllu valdi en olían bar þá mun meiri vigt í hagkerfum heimsins.

„Við erum ekki að glíma við slíkt þessa stundina. Það eru ekki nema örfá ár síðan vel gefnir einstaklingar voru farnir að velta fyrir sér hvort framtíðin yrði ekki bara með neikvæðri verðbólgu eða verðhjöðnun. Aukin framleiðni var væntanlega að draga úr þessum verðbólgukrafti og það mun gerast smám saman,“ segir Már.

Hann segir hins vegar að aðaláhyggjuefnið sé ferðamannaiðnaðurinn. Mikill samdráttur í ferðaþjónustu gæti haft mjög neikvæð áhrif. Það gæti leitt til kreppuverðbólgu því þá myndi hagvöxtur dragast saman og samhliða því myndi íslenska krónan veikjast.

„Þá myndu innfluttar vörur hækka í verði og leiða til verðbólguþrýstings og jafnvel töluverðs mikils verðbólguþrýsting samhliða því að hagkerfið væri að dragast saman,“ segir Már

Már segir erfitt að segja til um hver áhrifin yrðu á heildarhagkerfið þar sem mjög mikið af innfluttu starfsfólki starfi í ferðaþjónustunni

„Um 25% af þeim sem starfa í ferðaþjónustunni eru innfluttir Íslendingar og langstærsti hluti nýrra Íslendinga síðustu ára hefur farið að starfa í ferðaþjónustu þannig að ef það verður mikill samdráttur myndi einhver af þeim hópi flytja aftur út,“ segir Már.

„Ég er ekki með nein góð svör um hvernig eigi að bregðast við því en við þyrftum að auka á öðrum sviðum, tæknisviðum og öðru slíku,“ segir Már að lokum