Hús­næðis­verð í Tyrk­landi hækkaði um 95% milli ára í júlí og yfir 7% milli mánaða, sem jafngildir yfir 125% á ársgrundvelli. Sam­kvæmt The Wall Street Journal er hækkunin til marks um að Tyrkir leiti nú allra leiða til að verja sig gegn himinhárri verð­bólgu þar í landi.

Í­búðar­hús­næði í tveimur stærstu borgum Tyrk­lands hækkaði mest en vísi­tala í­búðar­verðs hækkaði 105% í Ankara og 83% í Tyrk­landi í júlí miðað við júlí í fyrra.

Tim Ash, sér­fræðingur hjá RBC BlueBay Asset Mana­gement segir hækkunina vera „geð­veiki en sí­gild verð­bólgu­vörn.“

Efnahagsstefnan „í ruglinu“

„Þetta sýnir bara í hversu miklu rugli efna­hags­stefna Tyrk­lands er í,“ bætir Ash við.

Tyrkir hafa einnig verið dug­legir að kaupa gull, skart­gripi og hluta­bréf til að verja sig gegn verð­bólgunni.

Vaxta­á­kvörðun tyrk­neska seðla­bankans er væntan­leg í vikunni en bankinn hefur reynt að að­hyllast eðli­legri stefnu í peninga­málum síðast­liðna mánuði, ef svo má að orði komast. Vísi­tala neyslu­verðs hækkaði úr 48% í júlí upp í 59% í ágúst­mánuði.

Líran hefur veikst um 30% gagn­vart dal á árinu sem hefur haft nei­kvæð á­hrif á inn­flutnings­verð sem kyndir undir verð­bólguna.