Húsnæðisverð í Tyrklandi hækkaði um 95% milli ára í júlí og yfir 7% milli mánaða, sem jafngildir yfir 125% á ársgrundvelli. Samkvæmt The Wall Street Journal er hækkunin til marks um að Tyrkir leiti nú allra leiða til að verja sig gegn himinhárri verðbólgu þar í landi.
Íbúðarhúsnæði í tveimur stærstu borgum Tyrklands hækkaði mest en vísitala íbúðarverðs hækkaði 105% í Ankara og 83% í Tyrklandi í júlí miðað við júlí í fyrra.
Tim Ash, sérfræðingur hjá RBC BlueBay Asset Management segir hækkunina vera „geðveiki en sígild verðbólguvörn.“
Efnahagsstefnan „í ruglinu“
„Þetta sýnir bara í hversu miklu rugli efnahagsstefna Tyrklands er í,“ bætir Ash við.
Tyrkir hafa einnig verið duglegir að kaupa gull, skartgripi og hlutabréf til að verja sig gegn verðbólgunni.
Vaxtaákvörðun tyrkneska seðlabankans er væntanleg í vikunni en bankinn hefur reynt að aðhyllast eðlilegri stefnu í peningamálum síðastliðna mánuði, ef svo má að orði komast. Vísitala neysluverðs hækkaði úr 48% í júlí upp í 59% í ágústmánuði.
Líran hefur veikst um 30% gagnvart dal á árinu sem hefur haft neikvæð áhrif á innflutningsverð sem kyndir undir verðbólguna.