Denmarks Nationalbank, seðlabanki Danmerkur, hyggst leggja niður þúsund króna seðilinn í landinu, sem jafngildir tæplega 20 þúsund íslenskum krónum, samkvæmt heimildarmönnum danska viðskiptamiðilsins Børsen.

Danski þúsund króna seðillinn er stærsti peningaseðillinn sem bankinn gefur út. Samkvæmt heimildum Børsen horfa stjórnvöld og seðlabankinn í Danmörku til þess að draga smám saman úr fjölda þúsund króna seðla í umferð með það fyrir augum að leggja seðilinn alfarið niður.

Þessi ráðstöfun fer að öllum líkindum fram með þeim hætti að almenningi býðst að skipta út þúsund króna seðlum fyrir aðra seðla í tiltekinn tíma. Að því tímabili loknu verða allir þúsund króna seðlar sem ekki hefur verið skilað inn ógildir og verðlausir.

Danski þúsund króna seðillinn er stærsti verðmætasti peningaseðillinn sem Nationalbank gefur út. Hann samsvarar tæplega 20 þúsund íslenskum krónum
Danski þúsund króna seðillinn er stærsti verðmætasti peningaseðillinn sem Nationalbank gefur út. Hann samsvarar tæplega 20 þúsund íslenskum krónum
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í umfjöllun Børsen segir að þessi aðgerð myndi hafa áhrif á peningaflæði meðal aðila sem stunda skipulagða glæpastarfsemi. Umræða um að leggja niður þúsund króna seðilinn hefur sprottið upp reglulega síðustu ár sem ráðstöfun til að draga úr umfangi peningaþvættis.

Í árslok 2022 voru seðlar að andvirði samtals 68,9 milljörðum danskra króna, eða sem samsvarar tæplega 1.400 milljörðum íslenskra króna, í umferð. Þar af voru um 25,2 milljarðar danskra króna, eða yfir 500 milljarðar íslenskra króna, í formi þúsund króna seðla eða um 36,5%.

Lækka þak á greiðslur í seðlum

Auk þess að leggja niður þúsund króna seðilinn horfa dönsk stjórnvöld til þess að lækka þak á greiðslur með reiðufé, samkvæmt heimildum Børsen.

Frá því í júlí 2021 hefur verið bannað í Danmörku að taka við greiðslum í reiðufé fyrir meira en 20 þúsund danskar krónur eða um 400 þúsund íslenskar krónur með seðlum. Þessi takmörkun er til fallin að gera glæpamönnum erfiðara fyrir að þvo pening.