Heiðar Guðjónsson fjárfestir gagnrýnir harðlega Guðmund Inga Guðbrandsson, formann Vinstri Grænna og félags- og vinnumálaráðherra, í aðsendri grein í sérblaði Viðskiptablaðsins vegna ársfundar SFS sem hefst kl. 13 í dag. Þar mun Heiðar flytja erindið Orkukerfi - sóun í nafni umhverfisverndar.

Heiðar furðar sig á skýrslu um leið Íslands í átt að kolefnishlutleysi sem umhverfisráðuneytið – sem Guðmundur Ingi stýrði á þessum tíma - skilaði til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fyrir umhverfisráðstefnuna COP26 í Glasgow síðla árs 2021. Í skýrslunni voru kynntar fimm mögulegar sviðsmyndir fyrir Ísland til að draga úr kolefnisspori landsins.

„Flestar gengu þær útá að slökkva á stóriðju, hætta að rækta búfé og að landsmenn yrðu grænmetisætur,“ segir Heiðar. „Í umboði hverra voru þessar fráleitu tillögur kynntar?“

„Furðuhugmyndafræði“ Landverndar

Heiðar rifjar einnig upp greinarskrif Guðmundar Inga, þáverandi framkvæmdastjóra Landverndar, um Suðurnesjalínu 2 í Fréttablaðinu árið 2013. Guðmundur Ingi gagnrýndi harðlega Landsnet og sagði m.a. að það væri með engu móti hægt að réttlæta jafn stórt flutningsmannvirki og 220 kV Suðurnesjalínu 2 með tilvísun til eflingar öryggis flutningskerfisins fyrir almenna orkunotendur.

„Í ljósi núverandi ástands og stórkostlegrar hættu út af eldsumbrotum var þessi grein í besta falli óheppileg,“ segir Heiðar.

„En hún er meira en það því á þessum tíma lágu fyrir spár jarðfræðinga um möguleg eldgos eins og þau hafa nú raungerst hjá Sundhnúkum. Til að kóróna vitleysuna lagði framkvæmdastjórinn fyrrverandi til að jarðstrengur yrði valinn á Reykjanesið.“

Heiðar segir að þetta séu ekki einu línurnar sem Landvernd hefur tekist að fresta eða stöðva.

„Nú er verið að keyra rafvæddar fiskibræðslur víða um land á olíu, vegna þess að Landsnet hefur ekki getað aukið flutningsgetu á loftlínum sínum en líka vegna þess að orkuöflun hefur verið í lamasessi. Allt í boði furðuhugmyndafræði Landverndar.“

Umhverfisvernd fólgin í átaki í grænni orkuöflun

Að mati Heiðars blasir við að það sé bæði gott fyrir Ísland og heiminn ef orkuöflun hér á landi eykst. Hann vísar í spár Orkustofnunar að tvöfalda þurfi framleiðslu á rafmagni hér á landi á næsta aldarfjórðungi. Alþjóðlega þurfi að auka rafmagnsframleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum meira á sama tíma.

„Til að auka framleiðslu hreinnar orku þarf að nýta arðvænlegustu verkefnin sem í boði eru. Það eru ekki sjávarfallavirkjanir eða vindorkuver útá sjó einsog málin standa. Hér á landi er nóg af hagkvæmum kostum í formi vatnsafls, jarðvarma og vindafls á landi.“

Auk þess segir hann þurfa að hringtengja svæði svo hægt sé að tryggja húshitun og rafmagn við náttúruhamfarir. Treysta þurfi landsnetið í heild en í dag tapist orka sem er á við Búrfellsvirkjun á ári hverju. Þá sé regluverkið hér á landi „einstaklega óskilvirkt, allt að óskum Landverndar“ sem leiði til mun lengri leyfisveitingaferlis en innan Evrópusambandsins „sem er nú ekki þekkt fyrir skilvirkni“.

„Það er ekki umhverfisvernd að hamla nýtingu grænnar orku, sem bara leiðir af sér aukna notkun jarðefnaeldsneytis, það er umhverfisvernd fyrir okkur og allan heiminn að gera átak í grænni orkuöflun.“

Einstök mistök sem hafi kostað Ísland gríðarlega fjármuni

Heiðar segir að Ísland sé komið hvað lengst í öllum heiminum í orkuskiptum. Hann furðar sig á því að við Kyoto-samkomulagið árið 1992 hafi embættismenn ákveðið að telja ekki með hitaveituna, sem er stærsti mengunarvaldur heims en hér nánast öll græn, þegar þjóðin skuldbatt sig til að minnka kolefnisfótsporið.

„Það voru einstök mistök sem hafa kostað land og þjóð gríðarlega fjármuni. En það gerir okkur ekki að umhverfissóðum, nema síður sé.“

Hann hrósar sérstaklega sjávarútveginum en engin önnur atvinnugrein hafi minnkað kolefnisspor sitt jafn mikið. Verið er að veiða og vinna jafn mikinn afla og fyrir 30 árum síðan en með um helming olíunotkunar.

Áskrifendur geta nálgast grein Heiðars í heild sinni hér.