Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,22% í 3,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf þrettán félaga hækkuðu og bréf sex félaga lækkuðu á aðalmarkaði í dag.

Mest velta var með bréf Kviku banka sem hækkuðu um eitt prósentustig í 680 milljóna veltu. Næst mest velta var með bréf Arion sem hækkuðu um 0,3% í 550 milljón króna viðskiptum.

Gengi bréfa Símans hækkaði mest allra félaga á markaði í dag, um 1,9%. Þá hækkaði Eik og Sjóvá um tæp 1,2%.

Icelandair lækkaði um 0,7% í 40 milljón króna viðskiptum, en gengi flugfélagsins stendur nú í 1,75 krónum.

Þá lækkaði gengi Iceland Seafood um 0,75% í 46 milljóna veltu, en gengi félagsins hefur lækkað um 55% frá áramótum.

Nova hækkað um 5,3% á tveimur dögum

Nova heldur áfram uppteknum hætti og hækkaði um rúmlega eitt prósentustig í viðskiptum dagsins. Gengi Nova hefur nú hækkað um 5,3% frá því að náði sínu lægsta dagslokagengi á þriðjudaginn síðastliðinn.

Gengið stendur nú í 3,98 krónum og er 22% undir útboðsgenginu í almennu hlutafjárútboði félagsins í síðasta mánuði.

Á First North var mesta veltan með bréf Alvotech sem hækkuðu um 5,9% í 50 milljón króna viðskiptum.