Bandaríska lyfjafyrirtækið Mallinckrodt, sem Sigurður Óli Ólafsson hefur stýrt undanfarið ár, á í viðræðum við helstu fjárfesta sína um sölu á sumum eða öllum rekstrareiningum fyrirtækisins, samkvæmt heimildum Wall Street Journal.
Meðal rekstrareininga sem rætt er um er samheitalyfjaeining félagsins, sem selur m.a. lyfseðilsskyld ópíóðalyf og ADHD-lyf. Í umfjöllun WSJ á dögunum segir að ef það raungerist muni það marka meiriháttar breytingu á lyfjageiranum vestanhafs en lyfjafyrirtækið hefur verið einn stærsti framleiðandi ópíóðalyfja í Bandaríkjunum.
Bandaríska lyfjafyrirtækið Mallinckrodt, sem Sigurður Óli Ólafsson hefur stýrt undanfarið ár, á í viðræðum við helstu fjárfesta sína um sölu á sumum eða öllum rekstrareiningum fyrirtækisins, samkvæmt heimildum Wall Street Journal.
Meðal rekstrareininga sem rætt er um er samheitalyfjaeining félagsins, sem selur m.a. lyfseðilsskyld ópíóðalyf og ADHD-lyf. Í umfjöllun WSJ á dögunum segir að ef það raungerist muni það marka meiriháttar breytingu á lyfjageiranum vestanhafs en lyfjafyrirtækið hefur verið einn stærsti framleiðandi ópíóðalyfja í Bandaríkjunum.
Mallinckrodt framleiddi um 66,8 milljarða ópíóðapilla á árunum 2005-2019, meira en nokkurt annað bandarískt fyrirtæki samkvæmt gögnum bandarísku fíkniefnalögreglunnar (DEA).
Mallinckrodt er einnig með stórt sérlyfjasvið sem selur frumlyf sem meðhöndla sjúkdóma á borð við nýrnabilun, eitlakrabbamein og MS-sjúkdóm.
Ekki er þó talið líklegt að fyrirtækið muni ráðast í söluferli á neinum rekstrareiningum fyrr en það hefur lokið tímabili greiðslustöðvunar. Jafnframt telja heimildarmenn WSJ mögulegt að ekki muni takast að selja rekstrareiningar félagsins.
Fyrir rúmum mánuði sótti Mallinckrodt um greiðslustöðvun (e. Chapter 11 bankruptcy protection) í annað sinn á þremur árum. Lyfjafyrirtækið á í viðræðum við lánveitendur sína um framtíð fyrirtækisins. Stjórnendur Mallinckrodt, þar á meðal Sigurður Óli, hafa tekið þátt í þessum viðræðum.
Helstu kröfuhafar lyfjafyrirtækisins eru um þessar mundir að meta mögulega frambjóðendur til stjórnar. Horft er til einstaklinga með reynslu í eignasölu, að sögn heimildarmanna WSJ.