Um þessar mundir eiga aðilar vinnumarkaðarins í viðræðum um gerð kjarasamninga sem ná til stórs hluta almenns vinnumarkaðar. Í síðustu viku skrifaði Ari Fenger, sem nýverið hætti sem formaður Viðskiptaráðs, grein sem birtist á síðum Morgunblaðsins þar sem hann bendir á hve kostnaðarsamir slíkir samningar hafa reynst atvinnurekendum.

Gott sé að enn virðist samstaða um meginmarkmið samninganna, að ná niður verðbólgu og vöxtum, en skilningurinn á leiðunum sem færi okkur nær þeim markmiðum sé ekki endilega sá sami. Þar standi hnífurinn í kúnni. Gjarnan séu nefndar upphæðir sem eigi að rata í vasa launþega en atvinnurekendur viti vel að endanlegur kostnaður kjarasamninga sé margfaldur á við þann sem minnst er á í fréttum tengt kjaraviðræðum.

„Undanfarin ár höfum við gert mjög dýra samninga og sá síðasti sem var gerður fyrir um ári síðan var dýr skammtímasamningur. Samningurinn þar á undan, lífskjarasamningurinn, var síðan dýr langtímasamningur. Að mínu mati hafa atvinnurekendur samið af sér í þessum tveimur samningum og atvinnulífið ekki staðið undir þeim. Við erum eitt örfárra ríkja þar sem kaupmáttur hefur verið að aukast á þessum krefjandi árum meðan íbúar flestra landa hafa verið að taka á sig kaupmáttarskerðingu. Á sama tíma hafa miklar vaxtahækkanir bitnað verulega á fyrirtækjunum og laun hækkuðu að jafnaði um tæp 10% á síðasta ári. Samt vill verkalýðsforystan banna fyrirtækjum að hækka verð. Ég skil ekki alveg hvernig þetta dæmi á að ganga upp. Fyrirtæki ganga út á það að skila einhverskonar arðsemi svo þau geti m.a. haft fólk í vinnu.“

Í greininni hafi Ari og Viðskiptaráð viljað vekja athygli á því að innan við helmingur af mánaðarlegum launakostnaði fyrirtækjanna af hverjum starfsmanni endi í vasa launþegans. Launahækkanir sé því ekki eina leiðin til að auka ráðstöfunartekjur launafólks.

„Það gleymist oft að horfa á heildarmyndina. Útborguð laun skipta starfsmenn augljóslega mestu máli. Vinnuveitendur horfa aftur á móti á heildarkostnað vegna launa og launatengdra gjalda. Eins og bent er á í greininni er bilið þar á milli ansi breitt og þeim sem greiða út launin er skylt að innheimta flest þessara gjalda. Til að geta boðið starfsmanni meðalgrunnlaun ársins 2022, sem voru 685 þúsund krónur á mánuði, þarf fyrirtæki að leggja út ríflega eina milljón á mánuði. Eftir lögboðnar skatta- og lífeyrisgreiðslur starfsmanna fær viðkomandi starfsmaður innan við helming af launakostnaði útgreiddan, eða 484 þúsund krónur.“

Því eigi það ekki að koma  á óvart að upplifun atvinnurekenda og verkalýðsforystunnar sé ólík, þar sem þeir semji um sinn hlutinn hvor.

„Viðskiptaráð telur sjónarmið atvinnurekenda gjarnan fyrir borð borin í umræðunni og sá kostnaður sem þeim er gert að innheimta fyrir hönd annarra er of hár. Jafnframt leynast víða tækifæri til að vænka hag launþega án þess að storka enn frekar samkeppnishæfni og verðstöðugleika. Það má gera með því að draga úr þeim fleyg sem rekinn er á milli starfsmanna og atvinnurekenda og hækka grunnlaun um sem því nemur. Í tilfelli meðalgrunnlauna ársins í fyrra nemur fleygurinn um 550 þúsund krónum.“

Að sögn Ara megi þannig í fyrsta lagi lækka tryggingagjaldið, sem sé einfaldlega skattur á að hafa fólk í vinnu. Í öðru lagi megi lækka tekjuskatt og útsvar sveitarfélaga. Svo að aðgerðirnar skili sér í raunverulegum kjarabótum þurfi þeim að fylgja samstaða um að hið opinbera dragi úr útgjöldum á móti. „Þannig mætti fyrr ná tökum á verðbólgunni. Það ætti að vera sameiginlegt keppikefli allra að skapa umhverfi þar sem vextir og verðbólga geta tekið að lækka.“

Ari tók við sem formaður Viðskiptaráðs fyrir fjórum árum af Katrínu Olgu Jóhannesdóttur sem hafði verið formaður ráðsins frá árinu 2016.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Valdlaus ríkissáttasemjari

Að mati Ara væri heppilegast ef komið væri upp einhvers konar kerfi þar sem horft sé til ákveðinna stærða til að meta hve mikið, eða hvort, svigrúm sé til staðar fyrir launahækkanir. Þannig þyrfti ekki að finna upp hjólið í hvert sinn sem sest er við samningaborðið.

„Það er enginn atvinnurekandi sem hefur ekki áhuga á að borga starfsfólki sínu mannsæmandi laun. Það vilja flestallir gera vel við sitt starfsfólk. Það hjálpar engum að búið sé að stilla atvinnurekendum og launþegum upp á móti hvor öðrum eins og gjarnan er gert í umræðunni. Það er ógerlegt að reka fyrirtæki án góðs starfsfólks. Aftur á móti er það ekki síður hagsmunamál fyrir launþega að gerðir séu samningar sem fyrirtækin ráða við, því annars leggja fyrirtækin hreinlega upp laupana.“

Ari segir með ólíkindum, miðað við hvernig síðustu kjaraviðræður enduðu, að ekki sé búið að ráðast í lagabreytingu til að tryggja ríkissáttasemjara auknar valdheimildir. „Að vinnumarkaðsráðherra hafi ekki enn, þrátt fyrir að hafa nærri heilt ár til stefnu, lagt fram frumvarp þess efnis er gjörsamlega út í hött. Það var vitað að allar líkur væru á að yfirstandandi viðræður Samtaka atvinnulífsins (SA) við breiðfylkinguna myndu enda hjá ríkissáttasemjara en samt ákveður ráðherrann vísvitandi að leggja frumvarpið ekki fram fyrr en í mars, þegar kjaraviðræðum verður væntanlega lokið. Valdheimildalaus ríkissáttasemjari er því að fara að fá SA og breiðfylkinguna inn á borð til sín. Því miður verður að teljast líklegt að sami sirkus fari af stað og fyrir ári síðan. Það er grátlegt að ekki hafi verið dreginn lærdómur af kjaraviðræðum síðasta árs.“

Nánar er rætt við Ara í sérblaði Viðskiptablaðsins um Viðskiptaþing. Hægt er að nálgast viðtalið í heild hér.